Perflúorefni (PFAs)

Svanurinn bannar notkun ýmissa efna í efna- og byggingarvörum.  Flest efnin eru bönnuð vegna umhverfis- og heilsuskaðlegra eiginleika þeirra. Perflúorkolefni eru eitt þessara efna en það eru efni sem innihalda hátt hlutfall flúors. Þessi efni eru mjög langlíf í umhverfinu og niðurbrotsefnin eru oft lítið skárri en upprunalegu efnin[1]. Þau bindast við prótein og safnast fyrir t.d. í lifur og blóði spendýra, þar með talið mönnum. Þar sem PFA er flokkur eða samheiti efna þá geta eiginleikar verið aðeins mismunandi eftir efnum en almennt eru þau talin vera PBT (þrávirk, safnast í lífverum og eitruð). Þau PFA efni sem hafa fengið mest umtal eru perflúoróoktansúlfónat (PFOS) og perflúoróoktansýra (PFOA). Síðan 2008 hefur verið bannað að nota PFOA í efnavörum innan ESB en engar slíkar kröfur eru á PFOA[2]. Það er aftur á móti ekki öruggt að vörur sem eru fluttar inn frá löndum utan EES séu lausar við PFOS.

Þessi efni eyðast ekki í náttúrunni heldur dreifast í lofti og vatni og finnast í vatnalífverum en einnig spendýrum. Sem dæmi um langlífi þessara efna þá finnast þau í tiltölulega miklu magni í ísbjörnum en þau finnast einnig í mannfólki, þar með talið nýfæddum börnum[3].

Út frá notkunarsjónarmiði er helsti kostur PFA-efna sá, að þau eru hvorki vatns- eða fituleysanleg. Þau eru því kjörin í textílvörur til að hrinda frá vatni og óhreinindum og er því gjarnan að finna í útilífsvörum, s.s. tjöldum, skóm og fatnaði, en einnig í ytra byrði á ýmsum textílvörum í sama tilgangi. Það er því til merkis um að vörur innihaldi PFA ef þær eru auglýstar sem vatns- eða fitufráhrindandi. Í byggingarvörum getur PFA-efni t.d. verið að finna í gólfteppum, málningu og lakki[4].

PFOA er t.d. notað sem hjálparefni við framleiðslu á pólýtetraflúoretýlen (PTFE) en annað nafn fyrir það er teflon. Samkvæmt framleiðendum á teflon ekki að innihalda PFOA en framleiðsla teflons veldur engu að síður losun á því út í náttúruna.

Fyrir þá sem vilja fræðast frekar um heilsuskaðleg áhrif perflúorefna, hugsanleg vikmörk/hættumörk, og mögulegar staðkvæmdarvörur þá má t.d. benda á eftirfarandi greinar / tengla

Tilvitnanir

[1] https://www.kemi.se/kemiska-amnen-och-material/hogfluorerade-amnen-pfas

[2] https://ki.se/imm/perfluorerade-och-polyfluorerade-amnen

[3] https://www.kemi.se/en/prio-start/chemicals-in-practical-use/substance-groups/perfluorooctane-sulphonate-pfos

[4] https://www.ust.is/graent-samfelag/efnamal/varasom-efni/pfos-og-pfoa/