Fréttir

July 21, 2016

Umhverfisdagur Byko

26 apríl 2019

Í gegnum tíðina hefur Byko verið okkur mjög innan handar við að finna byggingarefni sem má nota í svansvottuð hús.  Í upphafi voru starfsmenn Byko nokkuð afvaktandi varðandi þessa hugmynd að byggja vistvænt en eins og við höfum nokkrum sinnum komið inná þá hefur þeirra vegferð í átt að umhverfisvænni lífstíl verið nokkuð áhugaverð.  Það sem kannski skemmtilegast í þessu er að þeir sem voru neikvæðastir í byrjun eru búnir að sjá ljósið og líklega mestu talsmenn umhverfismála fyrirtækisins í dag.  Þar eru líklega fremstir í flokki vöruflokkastjórarnir sem sjá um innkaupinn.  Núna er það orðið hluti af þeirra verklýsingu að reyna ávallt að finna umhverfisvænni kost sé þess nokkur kostur.  Sem dæmi má nefna að Byko er núna komið með tvær tegundir að Svansvottuðu fúavörðu timbri, annars vegar Kebony og hins vegar Accoya.  Þessi efni eru þónokkuð dýrari en venjulegt fúavarið timbur en mikið betri fyrir umhverfið.  Við erum sérstaklega hrifin af Kebony timbrinu.  Þegar það er nýtt þá líkist það harðvið en eftir því sem það eldists þá gránar það og verður svipað og lerki.

Á morgun,m 26 apríl, ætlar Byko að kynna hvað það hafa verið að gera í umhverfismálum, með sérstaka áherslu á þær vörur sem má nota í svansvottuð hús.  Þar mun Svanurinn vera með kynningu á hvað felst í að votta hús, birgjar byggingarefna eins og t.d. Málning kynna ferillinn að umhverfisvotta sýnar vörur og við vera með fyrirlestur um byggingu hússins.  Ég mun einnig vera á svæðinu frá 13:00 til 16:00 ef fólk vill spyrja spurninga og kynnast Visthúsverkefninu betur.

Nánar um dagskránna er að finna á eftirfarandi slóðum:

https://www.byko.is/umhverfismal

https://www.facebook.com/events/533607300499159/

Myndirnar hér að neðan eru af nýjum palli úr Kebony sem er inni í verslun Byko.  Eins og sést á annarri myndinni er hægt að fá pallaefni sem er annað hvort slétt eða með vatnsraufum.  Ef fólk þarf á annað borð að vera með fúavarið timbur þá mæli ég með því að skoða þetta nánar (best er náttúrulega að vera með lerki sem ekki þarf að meðhöndla)

Umhverfisverðlaun

20 mars 2018

Á málþingi til heiðurs Ólafi H. Wallevik í tengslum við 60 ára afmæli hans veitti Rannsóknarstofa Byggingariðnaðarins, sem er staðsett við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, okkur mikla og góða viðurkenningu í formi umhverfisverðlauna.  Á viðurkenningunni segir að okkur sé veitt þetta fyrir “nýsköpun, þrautsegju og brautryðjendastarf fyrir vistvæna byggð á Íslandi …”.  Á kjarnyrtri íslenskri tungu heitir það að okkur var veitt þetta fyrir þrjósku.

Við erum afskaplega stolt yfir þessum áfanga sem og af húsinu.  Það er alltaf gott að fá klapp á bakið og viðurkenningu fyrir það sem við erum að gera.

Á myndinni hér að ofan erum við hjónin stolt með viðurkenninguna ásamt Ólafi H. Wallevik og Þorsteini Sigfússyni forstjóra NMÍ.

Eru vistvæn hús bara bóla?

Við hjónin ákváðum að ráðast í byggingu hússins sumarið 2015 og þá var eðlileg spurning að velta fyrir sér hvort það væri bóla að byggja vistvænt.  Ég var að rakst á þessa skemmtilegu tölfræði frá Svaninum yfir tilbúin hús og íbúðir auk íbúða í byggingu.  Þegar við tókum ákvörðun um byggingu hússins þá voru um 1.118 íbúðir Svansvottaðar í Svíþjóð og 1.696 í byggingu.  Tveimur árum síðar eru um 3.500 Svansvottaðar íbúðir (hús og íbúðir) og 6.700 í byggingu.  Það kemur ekki á óvart að fjölbýlishús eru lang algengustu byggingarnar í íbúðum talið. Það kom mér hins vegar á óvart hvað mörg smáhús (einbýli og raðhús) hafa verið byggð og eru í byggingu.

Það er því óhætt að segja að hlutirnir eru að gerast.

Nánari upplýsingar um tölfræðina er að finna heimasíðu Svansins í Svíþjóð.

“Sárið í húsinu”

20 september 2017

Það á enn eftir að setja upp hluta af klæðningu á húsið þar sem að þarf að laga smá á svölunum áður en við getum sett seinustu kassetturnar af klæðningunni á húsið.  Það breytir ekki því að núna eru öll svipbrigði hússins komin fram.  Það seinasta var “sárið” í húsinu eins og Siggi Einars arkitekt vill kalla það.  Með því á hann við að húsið er kassi með smá útskotum við stofu og eldhúsi.  Það er þó einn fleygur inn í húsið en það er við anddyrið.  Hann lýsir því sem “sárinu” sem er skorið inn í kassann.  Í sári er yfirleitt smá blóð og því var ekkert annað sem kom til greina en að hafa sárið rautt.

 

Við vorum samt nokkuð óviss hve rautt við ættum að hafa það, ferskt eða gamalt “blóð”.  Upphaflega vorum við að velta fyrir okkur “carmine red” eða Ral 3002 en enduðum síðan í aðeins dekkri lit eða Ral 3009 og erum við nokkuð sátt við það.

Í anddyrinu mætast semsagt allar tegundirnar af klæðningu sem við erum með á húsinu, lerki og tvær tegundir álklæðningar.

Byggingarefni

1 september 2017

Í dag var verið að uppfæra síðuna yfir byggingarefni.  Núna eru flest byggingarefni sem við höfum fengið samþykkt kominn inn á listann.  Það vantar samt öll efni sem við þurfum ekki að fá samþykkt, t.d. þar sem að þau eru umhverfisvottuð eða að þau hafa þegar verið samþykkt af Svaninum í Stokkhólmi og því þurfum við ekki að fá sérstakt leyfi fyrir þeim á Íslandi.

Byggingarefni

Efnalistar

1 ágúst 2017

Almenna reglan er sú að það þarf að skipuleggja með góðum fyrirvara hvaða efni á að nota í húsinu því það getur tekið smá tíma að fá þau samþykkt. Samþykktarferillinn felur í sér að fá ákveðnar staðfestingar (í formi viðauka við staðallinn) frá framleiðendum efnanna ásamt öryggisblöðum.  Það er sent til Svansins sem staðfestir hvort megi nota viðkomandi efni í Svansvottað hús.  Til að taka af allan vafa þá er það ekki það sama og að varan sé Svansvottuð.  Þar sem að umhverfisvottun húsnæðis fer vaxandi hafa sumir framleiðendur tekið frumkvæðið og fengið hluta af vöruframboði sínu samþykkt af Svaninum.  Þegar krísur hafa komið upp þá hefur þetta frumkvæði framleiðanda bjargað mér.    SIKA í Svíþjóð hefur t.d. gefið út bækling yfir vörur sem eru samþykktar fyrir mismunandi vottunarkerfi bygginga.  Þessi bæklingur hefur bjargað mér í nokkrum tilfellum.

Sika-produkter i Basta, Sunda Hus, BVB, Svanen, Leed

Soudal hefur gert svipað.  Þau hafa lagt út öll skjöl á netið sem eru nauðsynleg til þess að sækja um samþykki til Svansins.  Það er ekki sama og að samþykki sé komið, en þetta einfaldar ferillinn mjög.  Þá þarf ekki að eltast við að fá viðauka og skjöl undirrituð.  Þarna hleður maður heim skjölunum, sendir á Svaninn og fær samþykki.  Skjöl Soudal er að finna á eftirfarandi tengli:

Soudal skjöl

Aðrir fara svo alla leið og Svansvotta vörurnar en þá þarf ekki að fá þær samþykktar sérstaklega.  Málningarframleiðendur eru að verða mjög meðvitaðir og ef vel er gáð þá á að vera hægt að finna umhverfisvottaða málningu til flestra nota.  Innanhússmálning á ekki að vera vandamál, utanhúsmálning getur verið aðeins flóknari, hún er til en það þarf vinnu að finna hana.

Sprengisandur

6 febrúar 2017

Kristján Kristjánsson fékk mig í viðtal í þáttinn hjá sér “Sprengisand á Bylgjunni” í gær.  Við ræddum um allt milli himins og jarðar hvað varðar hugmyndafræðina á bak við húsið, helstu álitamál og hvað þetta er hrikalega skemmtilegt verkefni.  Þáttinn má nálgast á eftirfarandi hlekk: Sprengisandur

 

 

Orkuviðmið

6 janúar 2017

Ég fæ öðru hvoru spurningar um orkuviðmið hússins en orkunotkun í þessu húsi verður um helmingur af orkunotkun nýlegra húsa á Íslandi í dag.  Þessu næ ég með skynsamri hönnun, gluggastærðum, einangrun og loftræstikerfi.  Heildarorkunotkun verður í kringum 120 kWh á fermetra og ár.  Nýleg hús á Íslandi liggja í kringum 220 kWh.  Samkvæmt Svaninum er leyfileg orkunotkun húsa mismunandi eftir löndum.  Hérlendis er það um 140 kWh á fermetra á ár en á hinum norðurlöndunum er það undir 100 kWh.  Þó svo að húsið í Brekkugötunni sé með hagkvæmustu orkunotkunina á Íslandi þá erum við samt töluverðir eftirbátar hinna norðurlandana.  Í gær sat ég fund með aðilum sem voru að reikna orkunotkunina í fjölbýlishúsi sem þeir eru að hanna og skyldu ekki hvernig við hefðum komist niður í 120 kWh.  Það var enn erfiðara að skilja hvernig í ósköpunum skandinvarnir eru að komast undir 100 kWh.  Í því samtali benti ég viðkomandi á að skv evróputilskipun eiga allar nýjar opinberar byggingar frá og með 1 janúar 2019 og allar nýbyggingar frá og með 1 janúar 2021 að vera “næstum núll orku byggingar”.  M.ö.o þá mega þær nota að hámarki 20 kWh á fermetra á ár.

Ég hafði því gaman að því þegar Konráð Vilhjálmsson hjá BYKO sendi mér tengill á danska síðu þar sem það er verið að taka í notkun stúdentaíbúðir þar sem orkunotkunin er í samræmi við tilskipun ESB, þ.e hámarksorkunotkun 20 kWh/m2 og ár.   Framtíðin er núna

Fyrsti snjórinn

19 des 2016

Þá er komið að því.  Fyrsti snjórinn kominn og frost í kortunum fram yfir jól.  Þegar útveggir neðri hæðar voru steyptir var ég nokkuð bjartsýnn á framhaldið en núna er bara að vonast eftir að kuldatímabilið verði ekki mjög langt hér í bænum (þó annað gildi um fjöllin).  Meðfylgjandi er myndband sem ég tók þegar útveggir neðri hæðar voru steyptir á fullveldisdaginn.  Smá rok þannig að hljóðgæðin eru ekki sem best en hægt að ylja sér við bjartsýnina

Útveggir neðri hæðar steyptir

Útveggir neðri hæðar voru steyptir á fullveldisdaginn (1 des) í 8 stiga hita.  Það er víst ekki hægt að kvarta undan kulda þetta haustið.  Það lítur út fyrir að steypan hafi gengið nokkuð vel.  Eins og áður vorum við með smá áhyggjur af steypunni, sérstaklega því að hún gæti verið dálítið treg. Gluggarnir ná alveg niður að gólfi og áskorunin var að steypan rynni vel undir þá.  Það er ekki hægt að sjá annað en það hafi gengið alveg glimmrandi vel.

Undir eldhúsglugga

Undir eldhúsglugga

Það er ekki heldur að sjá nein steypuhreiður á veggjum eins og myndin úr stofu inn í eldhús ber með sér.  Á myndinni hér fyrir neðan má sjá eldhúsið og borðstofuna úr opinu á milli stofu og borðstofu.  Gluggarnir eru annars vegar stóri glugginn úr eldhúsi út á pall og minni glugginn er yfir vinnuborðinu í eldhúsinu.

Eldhús og borðstofa séð úr stofu

Eldhús og borðstofa séð úr stofu

Myndin hér fyrir neðan er síðan tekinn eftir steypumótunum fyrir bogavegginn í gegnum húsið.  Í dag (6 des) var verið að járnabinda þann vegg og er gert ráð fyrir að hann verði steyptur fyrir helgi (8 eða 9 des).

Bogaveggur séður úr hjólaverkstæði

Bogaveggur séður úr hjólaverkstæði

Það er ekki heldur að sjá annað en að þessi veggur hafi komið ágætlega út eftir steypuna.

 

Dagsljós

Eitt af viðmiðum Svansins (O13) er að það verður að reikna út dagsljós í húsinu út frá ákveðnum forsendum.  Við hönnun hússins þurfti því að taka tillit til þess að nýta dagsljósið á sem hagkvæmastan máta.  Samtímis sem gluggar gefa aukna birtu þá einangra þeir ekki eins vel og steypa og steinull.   Markmiðið var því að fá sem mest dagsljós í almennar vistarverur en takmarka það í rýmum sem eru minna notuð þ.e. þvottahús og hjólaverkstæði.   Eins og sést á  útreikningum Sölva hjá Batteríinu um  dagsljós er gott ljós í vistarrýmum (rauði liturinn) meðan hjólageymslan og þvottahúsið eru dekkri (blái liturinn).

 

dagsljos

Fræðslufundur um visthús

VSB og Vistbyggðaráð voru í dag með fræðslufund um visthúsið.  Sigurður Einarsson frá Batteríinu Arkitektum ræddi um hugmyndafræðina á bak við hönnun húsins og tengdi við Nordic Build.  Örn Guðmundsson frá VSB ræddi um sýn og aðkomu VSB að verkefninu, áskoranir og möguleg tækifæri.  Sveinn Áki Sverrisson leiddi okkur síðan í gegnum orkumálin, áskoranirnar þar og hvernig þær voru leystar.  Töluvert var rætt um kuldabrýr og aðferðir til að útrýma þeim.

Að loknum fyrirlestrum gekk hópurinn upp á lóð og skoðaði hina dásamlegu botnplötu sem var steypt í gær.  Þar voru smiðirnir mættir á staðinn að byrja að undirbúa fyrir uppsetningu steypumóta sem byrjar á morgun.  Við vonum að í lok dags hafi allir farið glaðir og hamingjusamir heim.

thumb_img_0255_1024

thumb_img_0253_1024

thumb_img_0250_1024

Botnplata

Í dag, 10 nóvember 2016, komst húsið endanlega uppúr jörðinni þegar botnplatan var steypt.  Ef haustið heldur áfram að vera hlýtt og blautt eins og hingað til eru allar líkur á því að við náum að steypa upp alla veggi og milliplötu fyrir jól.  Þá ætti að vera hægt að loka húsinu, þ.e. setja upp sperrur og þak í janúar.

thumb_img_2165_1024 thumb_img_2159_1024

Fræðslufundur um Visthús

Fimmtudaginn 11 nóvember, þ.e á morgun verður Vistbyggðaráð í samstarfi við VSB með fund um húsið á Brekkugötu.  Á fundinum mun Finnur fara yfir af hverju við erum að byggja húsið, Sigurður Einarsson hjá Batteríinu Arkitektar ræða hvað var öðru vísi frá þeirra bæjardyrum séð við bygginguna og Örn Guðmundsson/Sveinn Áki Sverrisson ræða hönnunarforsendur fyrir rafmagn og lagnir.  Fundurinn verður í húsi Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti kl 14:30.  Ef veður leyfir verður farið upp á lóð og nýsteypt botnplata skoðuð.

Frekari upplýsingar um fundinn er að finna á Facebook síðu Vistbyggðaráðs

 

Fyrsta steypan

Í dag, 4 október, voru sökklarnir steyptir og var í fyrsta skipti notuðu “umhverfissteypan” sem BM Vallá blandaði sérstaklega fyrir okkur.  Þar sem þessi steypa hefur ekki áður verið blönduð nákvæmlega eins hérlendis, þó svo að prinsippinn séu þekkt.  Fræðin segja að steypan sé líklega aðeins meira seigfljótandi en venjuleg steypa.  Reynslan í morgun var hins vegar jákvæð, steypan flaut betur en við kannski áttum von á.  Flóknasta steypan verður þegar við förum að steypa útvegg undir 4 metra langan glugga á efri hæðinni.  Því er ágætt að fá smá æfingu í sökklinum og á fyrstu hæðinni til að ná fullkomnu valdi á þessu áður en við förum undir langa gluggann.

Á morgun, þegar slegið verður utan af sökklinum, kemur síðan endanlega í ljós hve vel steypan tókst, þ.e. hvort það séu einhver steypuhreiður í sökklinum.

Nú geta framkvæmdir farið að hefjast

Þegar sótt er um byggingarleyfi er ferillinn í raun tvískiptur.  Annars vegar er sótt um samþykki byggingaráforma sem í daglegu tali er kallað byggingarleyfi.  Þetta er í rauninni einungis samþykki á aðaluppdráttum (að teikningin af húsinu sé í samræmi við deiliskipulag).  Framkvæmdarleyfi fæst síðan ekki fyrr en búið er að skila inn séruppdráttum/verkteikningum fyrir öllu  húsinu.  Samkvæmt byggingarreglugerð er hægt að sækja um takmarkað framkvæmdarleyfi ef bygging húsins er það flókin að hanna verður húsið á meðan á byggingu stendur.  Þar sem um er að ræða fyrsta umhverfisvottaða húsið samkvæmt Svaninum þá var sótt um takmarkað byggingarleyfi fyrir sökklum og grunni þannig að við gætum byrjað framkvæmdir áður en húsið er fullhannað.

Núna er hvorutveggja komið í hús.  Byggingarleyfið var samþykkt á fundi bæjarstjórnar þriðjudaginn 9 ágúst og takmarkaða byggingarleyfið datt í hús í dag, föstudaginn 12 ágúst.

Stefnt er að því að vera komin með endanlegt byggingarleyfi um miðjan september

Byggingarleyfi-Brekkugata 2, dags. 09.08.16

Tímabundið framkvæmdarleyfi 12.08.2016

Kaupsamningur á lóð

Í sambandi við málþing Vistbyggðaráðs um vistvottun Urriðaholts þann 10 maí síðastliðinn (2016) undirrituðum við kaupsaming á lóðinni við Brekkugötu 2 við Urriðaholt ehf.  Vottur að undirritun var Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar.  Frétt um undirritunina er að finna á heimasíðu Urriðaholts.

Vistvottun deiliskipulags Urriðaholts

Ein af ástæðum þess að við völdum að byggja húsið í norðurhluta Urriðaholts er að það er fyrsta deiliskipulagið á Íslandi sem hefur fengið umhverfisvottun.  Vottunin er samkvæmt breska vottunarferlinu “Breeam Communities”.  Rammaskipulag Urriðaholts hefur í heild fengið vottun en einungis norðurhlutinn hefur fengið vottun deiliskipulags.  Það hafði töluverð áhrif á ákvörðun okkar að byggja í norðurhluta hverfisins í stað vesturhlutans (sem var hugsun okkar í upphafi)

Á málþingi Vistbyggðaráðs um vistvottun Urriðaholts sem haldin var í Náttúrufræðistofunun þann 10 maí síðastliðinn fékk Garðabær fékk afhenta viðurkenninguna frá Breeam.

Þeir sem vilja kynna sér nánar hvað felst í vistvottun hverfisins eru nánari  upplýsingar um vistvottunina  að  finna á heimasíðu Urriðaholts.