Val á verktaka

Mikilvægasta ákvörðunin þegar fjárfesta á aleigunni í að byggja nýtt hús er líklega val á verktaka. Í þessum greinarstúf ætla ég að fara í gegnum af hverju við völdum Mannverk sem samstarfsaðila og verktaka við byggingu hússins. En fyrst kemur smá forsaga.

Stórfyrirtækjaheilkennið

Um seinustu aldamót bjuggum við Þórdís í Gautaborg, hún var í sérnámi í hjartalækningum og ég nýútskrifaður umhverfisfræðingur. Á þeim tíma var ég að vinna við að innleiða aðferðarfræði vistvænna innkaupa á Ísland í samstarfi við Umhverfisráðuneytið, Ríkiskaup, Reykjavíkurborg og fleiri aðila. Ég hafði unnið nokkuð með Innkaupastofnun Gautaborgar að svipuðum málum og þar var kona að nafni Berit Westberg, sem var minn “mentor” í þessum málum enda var hún með meira en áratugalanga reynslu í að innleiða vistvæn innkaup í Svíþjóð. Eitt af því sem hún benti mér á, og ég hef margoft rekist á sjálfur, er að það eru sjaldnast markaðsráðandi eða stærstu fyrirtækin sem taka nýjungar fyrst upp á sína arma. Að hennar mati þá var viðhorf stórfyrirtækjanna það að þau væru með bestu stefnuna, vörurnar og verkferlana, því annars væru þau ekki markaðsleiðandi. Að mati fyrirtækjanna væri engin þörf á að breyta því sem virkar vel. Þetta var það sem hún kallaði stórfyrirtækjaheilkennið (storföretagssyndromet). Reynsla hennar var að það væru lítil (en þó ekki agnarsmá) og meðalstór fyrirtæki sem hafa metnað að stækka, líklegust til að taka umhverfismál upp á sína arma og innleiða nýjungar. Þau litu svo á að umhverfismál gætu skapað þeim markaðssérstöðu og hjálpað þeim að vaxa.

Valið

Eitt af markmiðum okkar með byggingu hússins var að reyna að hafa áhrif á byggingariðnaðinn í þá átt að hann myndi tileinka sér vistvænni vinnubrögð. Til að það væri hægt var nauðsynlegt að finna metnaðarfullan verktaka, sem þó var ekki markaðsleiðandi samanber stórfyrirtækjaheilkennið. Þar að auki varð ég að fullvissa mig um að verktakinn hefði áhuga og bolmagn á að takast á við verkefnið með mér. Það var í raun og veru þrennt sem skipti síðan sköpum þegar við völdum Mannverk:

  • Mannverk var að byggja fjölbýli í Urriðaholti og þekkti vel til þeirra umhverfissjónarmiða sem almennt gilda í Urriðaholti
  • Fyrirtækið var að vinna að því að fá ISO 9001 gæðavottun.
  • Þrír mismunandi aðilar úr mismunandi áttum mæltu með Mannverk.

Reynslan

Núna er komið tæpt ár síðan samstarfið hófst og það er alveg ljóst að við hefðum aldrei getað byggt húsið án aðkomu verktaka eins og Mannverks.  Þó svo að við Þórdís séum að byggja húsið fyrir okkur þá verður Mannverk, sem byggingaraðili, að vera með verkferla sem tryggja að viðmið Svansins séu uppfyllt. Síðastliðið ár hefur Mannverk unnið í að tryggja það. Það var því sérstaklega ánægjulegt þegar Mannverk fékk gæðakerfið sitt vottað í samræmi við ISO 9001 gæðastaðalinn í lok maí síðastliðinn. Ég held að ég geti því sagt með nokkuð góðri vissu að Mannverk sé nú þegar með verkferla og þekkingu til að byggja Svansvottað íbúðarhús eða ef því er að skipta, skóla eða leikskóla.

Svo er bara að halda áfram og láta sig dreyma um að þau taki ISO 14001 umhverfisvottunina næst 🙂