Flokkun og endurvinnsla úrgangs

Svanurinn lagði mikla áherslu á flokkun úrgangs (aukaafurða) við byggingu hússins og nær eitt stigaviðmiðana yfir hlutfall flokkaðs úrgangs af heildarúrgangi.  Viðmiðið er í stórum dráttum eftirfarandi.

Ef hlutfall byggingarúrgangs frá nýbyggingum er flokkaður til endurvinnslu eða endurnýtingar fást eftirfarandi stig:

  1. Yfir 50% úrgangs flokkaður fæst 1 stig
  2. Yfir 60% úrgangs flokkaður fást 2 stig
  3. Yfir 70% úrgangs flokkaður fást 3 stig

Það er ekki nauðsynlegt að úrgangur sé flokkaður á verkstað. Það er einnig heimilt að skila úrgangi óflokkuðum ef endurvinnsluaðili flokkar úrganginn og skilar staðfestum skýrslum þar um.

Í Visthúsinu þurftum við að setja saman nokkuð nákvæmar flokkunarleiðbeiningar fyrir meðhöndlun úrgangs.  Þar sem að úrgangsmeðhöndlun er í stöðugri þróun þá þarf að endurskoða leiðbeiningarnar reglulega.  Nýlega gaf BYKO út flokkunarhandbók fyrir fyrirtækið sem er byggð á flokkunarleiðbeiningunum fyrir Visthús en þar sem búið er að þróa flokkunina enn betur.  Þessar flokkunarleiðbeiningar eru líklega bestu leiðbeiningar um flokkun og meðhöndlun byggingarúrgangs sem til eru í dag.  Hér að neðan er tengill á flokkunarhandbók Byko.

Reynslan af Visthúsi er að það þarf töluverða eftirfylgni með starfsmönnum og flokkun. Gámaþjónustufyrirtæki eru fljót að gjaldfella úrgang ef hann er ekki rétt flokkaður. Það þarf aga við flokkun og að skerpa á mikilvægi flokkunar við starfsmenn. Í Visthúsinu kom einnig fyrir að búið var að lauma úrgangi í gámana yfir nótt. Þetta gat verið allt frá heimilisúrgangi og yfir í garðaúrgang. Garðaúrgangur kom nokkuð á óvart þar sem að viðkomandi aðili hefur þurft að leggja mikið á sig að koma með hann þar sem það voru engir garðar í Urriðaholti þegar húsið var í byggingu.

Magn byggingarúrgangs var um 7 tonn þar sem að rúmlega helmingur var timbur. Þetta voru að megninu til umbúðir og bretti sem ekki var hægt að endurnýta. Plast og pappi var nokkuð rúmmálsmikið en ekki þungt. Timbrið er það sem taldi mest í þyngd. Af heildinni var úrgangur sem sendur var til endurýtingar um 89% sem gaf 3 stig.

Flokkunarhandbók Byko er að finna hé: