Val á vottunarkerfi

Skilyrði fyrir verkefninu að húsið skyldi vera vottað af óháðum þriðja aðila.  Það eru fjölmörg kerfi sem koma til greina og við skoðuðum flest þeirra út frá markmiðum verkefnisins og þá helst að húsið þarf að vera byggt á markaðslausnum sem á að vera hægt að gera “mainstream” á Íslandi.

Zero-energy og passive houses

Það eru til ýmis nöfn og skilgreiningar á núll-orkuhúsum en megin hugmyndafræðin er að húsið noti ekki meiri orku en húsið framleiðir sjálft eða er framleidd á staðnum.  Reglurnar varðandi passive houses eru nokkuð rýmri en þar eru vikmörkin að ekki megi nota meiri orku til upphitunar ern 15kWh á fermetra og ár.  Auk þess er skylt að vera með loftræstingu sem endurnýtir fráloft sem og ákveðin skilyrði eru um þéttleika húsa.

Hafandi markaðsaðstæður á Íslandi í huga og að orkunotkun í íbúðarhúsnæðis er rúmlega 200 kWh á fermetra og ár þá töldum við ekki að þessar tegundir húsa væru ekki líkegar til að geta orðið algengar á íslandi.

BREEAM

Breeam er breskt vottunarkerfi sem hefur aðeins verið notað á Íslandi varðandi skrifstofuhúsnæði.  Framkvæmdasýsla ríkisins hefur litið dálítið til þessa kerfis og eru nokkur hús hérlendis vottuð með BREEAM þar á meðal Hús Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti.

Vesturhluti Urriðaholts hefur einnig hlotið vottun BREEAM communities og því hefði verið nærtækast að votta húsið í samræmi við BREEAM.   Þegar verkefnið hófst var BREEAM ekki með staðal fyrir einbýlishús.   Það var ekki fyrr en 21 mars 2016 sem BREEAM gaf út staðal sem hefði getað náð yfir einbýlishús en þá var verkefnið komi það langt af stað að erfitt hefði verið að skipta um vottunarkerfi á þeim tímapunkti.

Það hafði einnig áhrif á ákvörðunina að viðmið BREEAM taka töluvert tillit til ytri atriða sem húsbyggjandi hefur litla stjórn á.  Það eru atriði eins og almenningssamgöngur og deiliskipulagslausnir.  BREEAM hentar því aðallega þeim sem eru að skipuleggja heilu hverfin en taka ekki mið af þörfum þeirra sem ekki ráða yfir þessum þáttum.  Því hefði BREEAM vottun aldrei getað orðið almenn, hún á meira við á afmörkuðum svæðum þar sem þegar er búið að byggja upp innviði sem uppfylla viðmið BREEAM.  Þar sem eitt af markmiðum verkefnisins er að sýna fram á að umhverfisvottun húsnæðis gæti hentað almenningi þá vann þetta ákvæði gegn BREEAM

Miljöbyggnad

Miljöbyggnad er stærsta vottunarkerfið í Svíþjóð og með megináherslur á sænskar reglur og venjur.  Miljöbyggnad er rekið af “Swedish Green Building Council” sem eru systursamtök Vistbyggðaráðs á Íslandi.

Milljöbyggnad er að mörgu leyti áhugavert verkfæri fyrir Ísland.  Það er algengasta kerfið í Svíþjóð, byggt upp af iðnaðnum sjálfum og er með ræturnar í sænskum reglugerðum og byggingarhefð.  Þar sem að byggingarreglugerðir þessara landa eru svipaðar þá þarf ekki stórvægilega aðlögun að íslenskum aðstæðum.

Viðmið Miljöbyggnad eru í öllum aðalatriðum uppbyggð með nokkrum frávikum sem fyrst og fremst snerta loftskipti.

Stærsti galli miljöbyggnad var að þetta er landsstaðall fyrir Svíþjóð og ekki alveg ljóst hvernig tækist að yfirfæra þekkingu til Íslands.  Það er töluverður kostnaður samfara vottun hjá þeim og líklega hefði hann orðið mun meiri fyrir okkur en almennt gerist í Svíþjóð þar sem fyrsta vottun á Íslandi hefði krafist mun meira vinnuframlags frá þeim.  Einnig hefðu öll samskipti þurft að vera á sænsku eða ensku sem hefði óhjákvæmilega flækt ferillinn án þess þó að vera afgerandi.

Að lokum voru sendar nokkrar fyrirspurnir til aðila í Svíþjóð sem hafa byggt í samræmi við Miljöbyggnad og var niðurstaðan frá þeim fyrirspurnum að Miljöbyggnad væri ekki valkostur fyrir okkur að svo stöddu.  Var frekar bent á Svaninn í því samhengi.

Svanurinn

Svanurinn er opinbert umhverfismerki norðurlandanna með skrifstofu á Íslandi.  Svanurinn á norðurlöndum er búið að votta byggingar síðan 2009 þannig að það er komin nokkur reynsla á kerfið.  Kerfið tekur einnig tillit til aðstöðu í hverju landi fyrir sig með tilvitnunum í byggingarreglugerðir hvers lands.  Þannig geta einstaka viðmið verið breytileg milli landa.  Stóra vandamálið er Umhverfisstofnun sem er fulltrúi Svansins á Íslandi var ekki með í gerð viðmiðanna og því hafa þau ekki verið aðlöguð að íslenskum aðstæðum.  Því þarf að leggja í vinnu við það.  Þar er sérstaklega átt við viðmið um orkunotkun húsnæðis.

Skrifstofa Svansins í Stokkhólmi var heimsótt í nóvember 2015 til að ræða vottunarferillinn. Kom þá í ljós að Svanurinn var að undirbúa nýja útgáfu af skilyrðum sem síðan var tekin í notkun í mars 2016.  Í þeirri útgáfu var aðferðarfræðinni breytt nokkuð, frá fyrirskipandi lausnamiðaðri aðferðarfræði yfir í markmiðasetningu.  Sem dæmi má nefna að fallið var frá skilyrði um notkun LED ljósa en þess í stað lögð áhersla á markmið varðandi orkunotkun.  Framkvæmdaraðilum er í sjálfsvald sett hvernig þeir ná markmiðinu.

Með nýrri aðferðarfræði var lögð áhersla á að virkja frumkvæði og sköpunargáfu hönnuða og að hver og einn finni lausnir sem henta viðkomandi.   Á sama máta má er hægt að taka enn betur tillit til mismunandi byggingarhefða í hverju landi fyrir sig.

Einnig var haft samband við byggingaraðila á norðurlöndunum til að fá þeirra sýn á Svaninn.  Viðhorfið gagnvart Svaninum var mjög jákvætt, góðir ferlar og almennt tiltölulega stuttar boðleiðir með fljótri ákvarðanatöku.

Svanurinn hefur einnig þann kost að skilyrðin ná eingöngu yfir bygginguna en ekki almenningssamgöngur eða aðra innviði sem húsbyggjandi ræður litlu sem engu yfir.  Það er því hægt að byggja Svansvottað hús hvort heldur sem er í miðbæ Reykjavíkur eða sem einstakt hús á landsbyggðinni.  Það eykur verulega líkurnar á því að Svanurinn geti orðið sú vottun sem flestir sammælast um.

Ofangreint ásamt því að Svanurinn er þekktasta umhverfismerkið á Íslandi var afgerandi fyrir því að Svanurinn var valinn sem vottunarkerfi.  Miljöbyggnad og BREEAM voru hins vegar sterkir kandidatar.

Önnur kerfi

Ýmis önnur kerfi voru skoðuð lauslega, s.s. LEED og DGNB.  Það var mat okkar að þessu kerfi hefðu lítið umfram það sem hin kerfin hafa að bjóða.  Ókostirnir væru einnig sambærilegir, aðlögun að íslenskum aðstæðum og hefðum sem og skortur á viðveru á Íslandi.