Verkefnið felst í að byggja vistvænt íbúðarhús að Brekkugötu 2 í Urriðaholti, Garðabæ. Húsinu er ætlað að uppfylla eftirfarandi:
- Að vera í öllum meginatriðum eins og íbúðarhús almennt er með nútíma þægindum.
- Að vera án flókinna sérlausna, þ.e. lausna sem byggjast ekki á þekktum lausnum í byggingariðnaði á Íslandi eða á hinum norðurlöndunum.
- Að vera umhverfisvottað með viðurkenndu þriðja aðila umhverfismerki.
Stefnt er að því að húsið verði vottað með norræna umhverfismerkinu Svaninum; nánar tiltekið viðmiðum gefnum út í mars 2016.
- Ef aðrir aðilar vilja byggja sambærilegt hús í framtíðinni ætti byggingarkostnaður þess að vera sambærilegur við önnur hús sem eru byggð samkvæmt venju og hefð á Íslandi.
Markmiðið með verkefninu er að stuðla að vistvænna samfélagi og byggja upp þekkingu hjá hagsmunaaðilum, þ.m.t. arkitektum, verkfræðingum, byggingarverktökum, birgjum byggingarefnis, ráðgjöfum, sveitarfélögum, skipulagsyfirvöldum og almenningi, um hvað felst í því að byggja vistvænt hús í samræmi við norræna umhverfismerkið Svaninn. Samkvæmt viðmiðum Svansins er hægt að umhverfisvotta einbýli, raðhús, fjölbýli, leikskóla og skóla.
Í samræmi við framangreint er helsta markmið verkefnisins að skapa þekkingu hér á landi um byggingu umhverfisvæns húsnæðis með því að byggja slíkt hús. Þá felur verkefnið einnig í sér tækifæri á að kynna umhverfisvænar lausnir í byggingariðnaði og skipulagi.
Um húsið:
Urriðaholt hefur haft frumkvæði í vistvænum lausnum í deiliskipulagi. Auk þess er Urriðaholt fyrsta hverfið á Íslandi til að fá vistvottun skipulags (BREEAM Communities) og því fer vel að fyrsta Svansvottaða íbúðarhúsið sé byggt þar.
Það hús sem verkefnið snýst um að byggja er einbýlishús að Brekkugötu 2 í Urriðaholti, Garðabæ. Í stuttu máli má lýsa því með eftirfarandi hætti:
- Húsið er hugsað fyrir 4-5 manna fjölskyldu. Það yrði á tveimur hæðum með áföstum bílskúr/hjólaverkstæði og heildarstærð þess er um 216 m2.
- Húsið verður steypt með álklæðningu. Í húsið verður notuð sérstök “umhverfissteypa” sem inniheldur minna sementsgjall en venjuleg steypa. Auk þess verður reynt að minnka notkun steypu, t.d. með þynnri veggjum þar sem það er hægt.
- Húsið mun nýta þekktar lausnir á Íslandi hvað varðar upphitun (fjarvarma) og rafmagn. Þó er stefnt að því að nýta aðrar þekktar markaðslausnir þegar kemur að rafmagnsnotkun, loftræsingu og endurnýtingu varma. Stefna er að því að hluta af orkunotkun húsins verði mætt með sólarrafhlöðum.
- Stefnt er að því að allt að 30% að ytra byrði hússins sé timbur en það er leyfilegt hámark samkvæmt deiliskipulagi. Að öðru leyti skal leitast eftir eins umhverfisvænu og viðhaldsfríu ytra byrði og mögulegt er, líklega álklæðning
- Við hönnun hússins skal taka sérstakt tillit til vistvænna samgangna og áhersla verður á möguleika til hleðslu rafbíla og góða aðstöðu fyrir reiðhjól.
- Við hönnun hússins skal taka tillit til staðsetningar þess svo það falli sem best að umhverfinu. Sérstaklega skal haft í huga að við landmótun verði hægt að endurnýta sem mest af landinu og jarðvegi aftur í húsinu eða á lóðinni.
Tímalína:
Framgangur verkefnisins er áætlaður með eftirfarandi hætti:
- Samþykkt byggingaáforma: júlí 2016
- Verkteikningar tilbúnar: ágúst 2016.
- Tilbúið til innflutnings: 01.06.2017.