Loftþéttleikapróf

Ein af kröfum Svansins við vottun bygginga er að framkvæmd sé loftþéttleikamæling á húsunum. Markmiðið er að staðfesta að þéttleiki hússins sé í samræmi við hönnunarforsendur og að orkuútreikningar standist. Ég komst fljótlega að því í ferlinu að það er næstum óþekkt á Íslandi að loftþéttleikapróf séu framkvæmd.   Á Íslandi eru þessi próf fyrst og fremst reykpróf í tengslum við brunavarnir. Ég fékk því reykvarnarteymi Securitas til að framkvæma prófið fyrir mig og hér á eftir fer ég í gegnum helstu niðurstöðurnar af því.

Forsendur

Samkvæmt viðmiðum Svansins þá er tilgangur prófsins að tryggja að húsið sé þétt úr orkusjónarmiði. Björn Marteinsson, lektor í HÍ, var okkur hjónum mikið innan handar í verkefninu, kom með áhugaverða nálgun. Í umræðum um alla rakaskemmdir þá væri skynsamlegt að nota loftþéttleikaprófið einnig til að athuga þéttleika rakavarnarlagsins. Til að tékka þéttleika rakavarnarlagsins er mikilvægt að rafvirkar séu einnig búnir með alla lagnavinnu í loftinu. Það sé alltaf hætta á að þeir gati plastið

Að gera loftþéttleikaprófið svona snemma í byggingarferlin er frávik frá viðmiðum Svansins þar sem það á að gerast þegar húsið er fullbúið. Ávinningurinn á því að skoða rakavarnarlagið er hins vegar það mikill að Svanurinn veitti okkur undanþágu að gera það fyrr í ferlinu.

Þegar prófið var framkvæmt voru allar hurðir og gluggar komnir á sinn stað nema bílskúrshurðin. Bílskúrinn er ekki upphitaður að öðru leiti en að langagrindin er þar inni. Við ákváðum því að undanskilja bílskúrinn. Prófið var því gert í dyragættinni á milli bílskúrs og þvottahús. Í  dyragættina var settur dúkur og blásari sem myndaði 50 Pa mismunaþrýsting. Það var eitt vandamál við þess framkvæmd sem er að rafmagnstaflan, loftræstikerfið og lagnagrindin er í bílskúrnum. Það þurfti því að loka fyrir / þétta alla barka sem lágu úr húsinu og út í bílskúr.

Undirbúningur og framkvæmd

Frá upphafi vissu smiðirnir að við ætluðum að gera loftþéttleikapróf á húsið. Þess vegna var lagt töluvert kapp á að hafa rakavarnarlagið vel úr garði gert. Það verður einnig að viðurkennast að smiðirnir voru nokkuð spenntir fyrir prófinu og sjá hvernig plastið hegðaði sér í raunveruleikanum.

Prófið var framkvæmt í samræmi við ISO9972:2015. Eins og áður sagði þá var viftunni komið í dyragættina á milli bílskúrs og þvottahúss og myndaður 50 Pa mismunaþrýstingur. Síðan var loftflæðið mælt sem þurfti til að viðhalda þrýstingnum og það samsvarar þá loftlekanum. Gerð voru 3 próf þar sem fyrri tvö prófin voru með 50 Pa yfirþrýstingi í húsinu. Síðan var viftunni snúið við og myndaður 50 Pa undirþrýstingur.

Til að sjá betur hvort að plastið væri þétt notuðum við reykpenna til að auðvelda okkur að sjá hvernig loftið hagaði sér. Hvort það hyrfi undir plastið eða blæsi í burtu.

Framkvæmd prófana og helstu niðurstöður

Próf 1

Þegar fyrsta prófið var framkvæmt kom í ljós göt í hleðsluvegg á milli bílskúrs og þvottahúss og þrufti að þétta þau. Fyrsta prófið var því nokkur markleysa.

Próf 2

Í seinna prófinu kom fram leki á nokkrum krítískum stöðum þrátt fyrir að rakavarnarlagið hafi verið vel kíttað og smiðirnir vandað sig verulega við að setja það upp. Leikinn var fyrst og fremst á eftirfarandi:

  • Þar sem gert ráð fyrir að rafmagnsbarkarnir tengdust upp í loft, sjá meðfylgjandi myndband
  • Við samskeyti steypumóta. Það virðist sem að loft geti einhvernveginn komist meðfram þeirri litlu ójöfnu sem myndast við samskeytin þrátt fyrir að það sé kíttað ágætlega
  • Við glugga, ef kíttið var sparað.
  • Göt í rakavarnarlagi eftir iðnaðarmenn. Það verður alltaf að gera ráð fyrir að rakavarnarlag gatist og því sé nauðsynlegt að gera prófið þegar loftið er tilbúið en áður en því er lokað.

Það var gert við allann leka. Rakavarnarlagið kíttað mikið betur og göt voru teipuð aftur með teipi frá SIGA sem var sérstaklega mælt með við okkur.

Próf 3

Hér var viftunni snúið við og myndaður 50 Pa undirþrýstingur í húsinu.   Til að gera langa sögu stutta, ef það var einhver veikleiki í rakavarnarlaginu þá rifnaði það upp á löngu köflum. M.ö.o þá komu í ljós allir veikleikar sem ekki komu í ljós við yfirþrýstingsprófin. Það var sérstaklega áhugavert að ef einhverstaðar var sparað við rakavarnarkítti til að halda plastinu þá losnaði plastið frá. Þetta var einna augljósast við glugga þar sem að smiðirnir höfðu reynt að “kítta fínt” til að það kæmi ekki of langt út á gluggana.

Niðurstaðan úr seinasta prófinu var sú að plastið hegðar sér allt öðru vísi eftir því hvort um er að ræða yfir- eða undirþrýsting. Undirþrýstingspróf eru mun líklegri til að leiða í ljós galla í rakavarnarlaginu en yfirþrýstingspróf.

Niðurstöður prófana

Það kom viðstöddum nokkuð á óvart hvað rakavarnarlagið gaf sig. Sérstaklega þegar það er haft í huga að smiðirnir höfðu vandað sig nokkuð við uppsetningu þess. Í framhaldi af því urðu nokkrar umræður um rakavarnarlag almennt, hve vel það heldur og ekki minnst þegar haft er í huga sá þrýstingur sem er á að klára byggingar hratt, koma þeim í verð og íbúum fljótt inn. Spurningin sem sótti á okkur þar var hvort þessi asi sé á kostnað gæða?

Helstu niðurstöður prófananna eru:

  • Loftskipti (air change rate) eru 0,32 sem okkur skilst að sé mjög gott fyrir einbýli hérlendis
  • Loftþéttleiki (Specific Leakage rate) er 0,682 sem er langt undir íslenskum kröfum sem eru 3,0 [m3/m3h] en örlítið yfir ströngustu kröfum í Evrópu sem eru 0,60.

Þessar niðurstöður eru að mörgu leiti mjög góðar. Þegar prófið var framkvæmt þá komu gallar í ljós sem búið er að laga í dag. Það var ekki búið að múra vegginn á milli bílskúrs og þvottahúss og við vitum að það var smá leki þar þrátt fyrir að við hefðum lagað stærstu götin.  Við gerum ráð fyrir því að ef við gerðum þéttleikapróf á húsinu í dag, þegar það er fullfrágengið, þá væri húsið enn þéttara.

Íslenskar reglur

Á þeim tíma sem liðinn er frá því að við gerðum loftþéttleikaprófin hef ég orðið margs vísari um íslenskar reglur og framkvæmd. Þegar ég var að skoða hvernig ég ætti að framkvæma prófið þá kom ég yfirleitt að tómum kofanum. Mér var sagt að það er enginn að framkvæma svona próf og lítil reynsla til staðar. Þess vegna leitaði ég til reykvarnarteymisins hjá Securitas.

Það kom mér því dálítið á óvart þegar ég komst að því að samkvæmt byggingarreglugerð (kafli 13.5)þá ber framkvæmdaraðilum að gera loftþéttleikapróf. Í byggingarreglugerð segir alla vega að “Tryggja skal að hús séu nægjanlega loftþétt til að koma í veg fyrir orkutap og dragsúgur valdi ekki óþægindum” Síðan er einnig tekið fram að lofthluti byggingahluta (loftstreymi mælt við 50 Pa mismunaþrýsting) skuli vera minna en 3 rúmmetrar á fermetra og klukkutíma [m3/m2h].

Í framhaldi af þessu hef ég spurt nokkra framkvæmdaraðila um túlkun á þessu ákvæði. Svarið er nokkuð einróma á þá leið að byggingarfulltrúm finnist þetta kannski ekki mikilvægt, það sé næg endurnýjanleg orka á Íslandi. Það hafi aldrei verið spurt um loftþéttleikaskýrslu frá eftirlitsaðilum.

Lokaorð

Allir þeir sem komu að loftþéttleikaprófinu í Brekkugötu lærðu mikið af því. Fyrir mitt leiti var áhugavert að fylgjast með fagmönnunum og undrun þeirra á því hvernig rakavarnarlagið hegðar sér undir álagi. Það er yfirleitt eitthvað sem við sjáum ekki því rakavarnarlagið er “falið” í loftinu.

Á norðurlöndum eru loftþéttleikapróf skylda og eru þau yfirleitt það seinasta sem er gert áður en hús eru afhent. Ég tel að við ættum einnig að fara þá leið. Við ættum kannski að ganga skrefinu lengra en skandinavarnir. Við ættum að líta á loftþéttleikaprófið sem bæði orkusparnaðaraðgerð en ekki síður sem lið í rakavörnum. Prófin þurfa ekki endilega að vera gerð á öllum íbúðum/húsum. Þegar um sambærileg hús er að ræða ætti að vera nægjanlegt að fara frammá að gerðar séu stikkprufur í 10 til 20% tilfella. Það eitt að iðnaðarmenn vita að íbúðareining geti lent í loftþéttleikaprófi mun bæta vinnubrögð. Það var alla vega reynslan í Brekkugötunni.