Draumahúsið – Í sátt við náttúruna

Sumardaginn fyrsta næstkomandi (25 apríl 2019) verður sýndur heimildarþáttur á RÚV (kl 20:15) um ferillinn að byggja húsið.  Í tilefni af því er ágætt að rifja upp af hverju við hjónin réðumst í að byggja fyrsta umhverfisvottaða íbúðarhúsið á Íslandi.

Sagan byrjar í í upphafi aldarinnar eða í kringum árið 2003/4.  Þá bjuggum við hjónin í Gautaborg og höfðum verið þar í 8 eða 9 ár.  Ég var að vinna sem ráðgjafi í umhverfismálum, aðallega í Svíþjóð en einnig hér heima.  Í einni af ferðinni til Íslands kom upp að ef við flyttum einhvern tímann aftur til Íslands þá væri kjörið að byggja umhverfisvottað hús.  Haustið 2007 flytjum við heim og komum okkur fyrir í gömlu húsið í Hafnarfirði, lögðum ekki í byggingu á þeim tíma.  Síðan gerðist ýmislegt í efnahagsmálum á Íslandi þannig að hugmyndin var sett á ís eða kannski réttara sagt, neðst niður í frysti.  Það voru samtímis nokkrar umræður hjá arkitektum, verkfræðingum og opinberum aðilum um vistvænar byggingar.  Það fór aðeins í pirrurnar á mér að það var mikið talað en lítið gert.  Það voru einna helst opinberir aðilar sem reyndu að veikum mætti að byggja Breeam vottaðar byggingar en að mestu var afskaplega lítið að gerast.

Fyrri hluta árs 2015 var ég minntur á orð mín frá 2003/4 og fékk spurninguna hvort ég hefði enn áhuga á að byggja umhverfisvottað hús og þá í Urriðaholti.  Urriðaholtið var þá að fá vistvottun og lagði mikla áherslu á umhverfismál og á þeim bæ væru menn mjög áfjáðir í að fá vottað hús í hverfið.  Vandamálið var nú vorum við hjónin búin að róta okkur vel í Hafnarfirði og kunnum mjög vel við okkur þar.  En þetta var gamall draumur sem við vildum ekki alveg gefa frá okkur þegar okkur bauðst að kaupa lóð á góðum stað í Urriðaholtinu.  Við vissum líka að draumar geta breyst í eitthvað allt annað og því var nauðsynlegt að setja niður markmið með byggingu hússins.  Við vildum ekki bara byggja hús fyrir okkur sjálf (þó það sé mikilvægt) heldur einnig nota þetta sem fordæmi fyrir aðra og sýna framá að það geta allir, sem hafa á annað borð efni á að byggja hús, byggt umhverfisvottað hús.  Markmiðin sem við settum okkur voru eftirfarandi:

  • Við viljum nýta ferillinn við að byggja húsið til að hafa áhrif á fagfólk, arkitekta, verkfræðinga, verktaka, birgja byggingarefnis, fasteignafélög og fjárfesta í þá átt að þeir hanni og byggi vistvænni hús.
  • Húsið á ekki að líta út fyrir að vera umhverfisvottað heldur fallegt hönnunarhús (sem okkur finnst að hafi tekist)
  • Ef allir eiga að geta byggt vistvænt þá má húsið ekki vera með flóknum umhverfislausnum sem enginn hefur efni á heldur þurfa allar lausnir að vera til á markaðnum og aðgengilegar fyrir almenning þó þær væru kannski ekki almennar.
  • Húsið á að vera byggt samkvæmt íslenskri byggingarhefð en þó vera umhverfisvænt
  • Húsið á ekki að vera sjálfbært heldur umhverfisvottað.  Það þýðir að húsið á að vera betra úr mun betra úr umhverfissjónarmiði en sambærileg hús sem eru byggð á Íslandi.
  • Húsið má ekki vera dýrara í byggingu en sambærileg hús (þá verður aldrei “mainstream” að byggja vistvænt)
  • Húsið þarf að vera viðhaldsfrítt eða svo til viðhaldsfrítt.
  • Húsið verður að vera vottað.  Það geta allir sagt að húsið þeirra sé umhverfisvænt en það að við fengum norræna umhverfismerkið Svaninn til að taka út verkferillinn við að byggja húsið gefur trúverðugleika.  Brekkugata 2 er fyrsta íbúðarhúsið þar sem að ferillinn að byggja húsið hefur verið tekinn út af óháðum aðila og staðist vottun.

Þessi markmið settu okkur ýmsar skorður en voru einnig góðar leiðbeiningar.  Þegar það fréttist að við værum að ráðast í verkefnið þá höfðu ýmsir aðilar samband með mis umhverfisvænar lausnir.  Sumar voru umhverfislega í lagi meðan aðrar voru mjög hæpnar úr umhverfissjónarmiði.  Ein lausn sem við horfðum nokkuð lengi á var að hafa burðarvirkið í húsinu úr CLT einingum.  CLT stendur fyrir Cross Laminated Timber og eru límtréseiningar.  Timbur er almennt umhverfisvænt byggingarefni.  Við ákváðum samt að byggja steinsteypt hús því það er íslensk byggingarhefð (auk þess sem CLT var vart komið á almennan markað í byrjun árs 2015).  Í staðinn unnum við með umhverfisspor steypunar og minnkuðum bæði steypumagn og kolefnisspor hvers rúmmetra af steypu.  Sambærileg álitamál komu einnig upp varðandi klæðningu á húsinu, einangrun og ýmislegt annað.  Niðurstaðan var ávallt sú að velja markaðslausnir en ávallt þá bestu úr umhverfissjónarmiði.

Þó sagan hafi byrjað árið 2003/4 þá er henni langt í frá lokið.  Nýlega var fyrsta fjölbýlið vottað en það er að Urriðaholtsstræti 10 til 12 hér í Urriðaholti.  Auk þess eru nokkrir aðrir aðilar að skoða að votta íbúðarhús.  Það er von okkar að þetta litla verkefni sem við réðumst í eigi eftir að vaxa og dafna þannig að húsið okkar verði ekkert umhverfisvænna en almennt gengur og gerist eftir svona eins og 10 ár.

Um þetta og ýmislegt annað verður rætt í sjónvarpsþættunum á sumardaginn fyrsta.  Þar er rætt við ýmsa aðila sem komu að verkferlinu og þeirra sýn og reynslu af þáttöku í verkefninu.