Verktakar, birgjar og samningssamband við þá

Í kjölfar þáttarins í gær hef ég fengið nokkrar spurningar um hvort það hafi ekki fleiri komið að verkefninu heldur en þeir sem rætt var við í þættinum í gær.  Svarið er auðvitað jú þar sem það fer enginn í svona verkefni einn og sér.  Það er næstum ógerningur í dag að byggja sér hús eins og gert var uppá gamla mátann fyrir um 30 árum síðan.  Kröfurnar í byggingarreglugerð eru orðnar miklu meiri svo ekki sé talað um uppáskriftir iðnmeistara, gæðakerfi og sambærilegt.  Þess vegna fórum við snemma í að leita að samstarfsaðilum á hinum ýmsu sviðum.

Varðandi hönnun þá þurftum við að semja við 3 mismunandi hönnuði

  • Batteríið sem sá um arkitektahönnun
  • VSB sem sá um verkfræðihönnun, burðarþol, lagnahönnun, rafhönnun, loftræsingu og sambærilegt
  • Landslag sem sá um hönnun lóðar

Varðandi byggingu hússins þá þurfti bæði að fá verkefnastjóra til að samræma verklag og útvega iðnaðarmenn og síðan voru tvö fyrirtæki sem sáu um megnið af framkvæmdum

  • Mannverk spilaði hér meginhlutverk þar sem þeir sáu um alla verkefnastjórn og eru leyfishafar Svansvottunarinnar.  Þau voru í lykilhlutverki að láta drauminn rætast.  Fyrir um 2 árum síðan skrifuðum við grein um af hverju við völdum Mannverk sem aðalverktaka og á sú grein alveg jafn mikið við í dag. http://visthus.is/2017/07/11/val-a-verktaka/
  • Aflmót sá um alla steypuvinnu
  • Breyting ehf sem kom að ýmissi vinnu innanhúss og að setja upp klæðninguna á húsinu
  • Aðrir verktakar komu verkefnum eins og raflögnum, pípulögnum, uppsetningu innréttinga, múrvinnu, jarðvinnu, málningarvinnu o.s.frv.  Flestir þessara verktaka komu í gegnum tengslanet Mannverks.  Það má alveg segja að án Mannverks og þeirra undirverktaka hefðum við aldrei náð að róa þessu í land.

Helstu birgjar byggingarefnis voru:

  • Byko með allar almennar byggingarvörur, timbur, hurðir, glugga og svo framvegis
  • BM Vallá með steypu, hellur og aðrar steypuvörur
  • Reykjafell með megnið af raflögnun
  • Varmi með loftræsikerfið
  • Íspan með spegla og glerhandriði innanhúss
  • GKS með allar innréttingar
  • Smith og Norland með heimilistæki
  • S:Helgason með borðplötur í eldhúsi og baði
  • Steinullarverksmiðjan varðandi einangrun

Gámaþjónustan sá síðan um að þjónusta okkur varðandi meðhöndlun úrgangs

Allir þessir aðilar eiga miklar þakkir skyldar og reynslunni ríkar þá myndum við alveg vilja vinna með þeim öllum aftur.

Við höfum einnig í gegnum tíðina fengið spurningar um samninga okkar við verktaka og birgja. Hefur þá gætt nokkurs misskilnings þar sem fólk hélt að við höfðum fengið byggingarefni frítt.  Til að taka af allan vafa þá er svo ekki enda lítum við ekki á okkur sem áhrifavalda með Instagramreikninga.  Við fórum vissulega fram á að fá góð kjör – ekki ósvipuð því sem verktakafyrirtæki eru almennt að fá – en samtímis yrði samkomulagið að vera á viðskiptalegum forsendum.  Eina sem ég gat boðið á móti var að hjálpa þeim að túlka og skilja hvað umhverfismál ganga út á í þeirra starfsemi og vöruframboði.  Í þeim tilfellum sem ég hef veitt fyrirtækjum ráðgjöf á móti þá hefur það einnig verið á viðskiptalegum forsendum.  Með öðrum orðum þá var ég almennt ekki að fá önnur kjör en þau sem stórir verktakar eru að fá.  Á okkur hvíla því engar skyldur að ræða á jákvæðan  hátt um fyrirtækin og þeirra vörur enda væri það andstætt markmiðum okkar að reyna að gera allan byggingariðnaðinn umhverfisvænni.  Samningarnir voru ekki heldur bindandi á þann máta við mættum ekki eiga viðskipti  við aðra eða fræða þá um umhverfismál almennt.  Þannig vorum við alveg óhrædd að leita til annarra aðila ef ofangreindir birgjar gátu ekki hjálpað okkur og það gerðist nokkrum sinnum.

Fyrir okkur er sjálfstæðið mikilvægt enda hverfur trúverðugleikinn ef umræðan væri keypt.  Málið er síðan að reynsla okkar af samstarfinu við ofangreind fyrirtæki er að lang mestu leiti jákvæð og það kannski endurspeglar umræðuna.  Með öðrum orðum þá höfum við verið nokkuð heppin með samstarfsaðila