Urriðaholt
Húsbyggjendur voru búin að ganga með hugmyndina að byggja vistvænt hús í mörg ár en hún var síðan endurvakin vorið 2015 þegar Halldóra Hreggviðsdóttir hjá Alta hefur milligöngu um að hefja samtal milli Urriðaholts og húsbyggjenda um verkefnið. Að Urriðaholtið varð upphaflega fyrir valinu byggðist fyrst og fremst á því að norðurhluti2 Urriðaholts er fyrsta og eina hverfið sem hefur fengið Breeam Communities vottun fyrir deiliskipulag. Þrátt fyrir þetta komu upp ýmis álitamál um val á staðsetningu og lóð.
- Húsbyggjendur höfðu fyrst áhuga á að byggja húsið við Hraungötu sem er í vesturhluta Urriðaholts. Þar hafði farið fram grunnmat fyrir Breeam vottun en deiliskipulagið var ekki Breeam vottað eins og í norðurhluta 2.
- Lóðir í Urriðaholtinu er nokkuð stórar og byggingarmagn á bilinu 300 til 400 fermetrar sem er ekki beint umhverfisvænt, þ.e. að byggja 300 m2 hús fyrir fjögura manna fjölskyldu. Til viðbótar þá eru innbyggðir hvatar í gjaldskrá Garðabæjar að byggja stór hús. Sé byggt minna einbýli skal greiða gatnagerðargjöld af a.m.k 240 fermetrum.
- Í Urriðaholti eru deiliskipulagsákvæði sem voru okkur þyrnir í augum varðandi umhverfisaðlagaða hugsun. Þau ákvæði sem fyrst og fremst trufluðu okkur var skilyrði fyrir 3 bílastæðum á lóð og takmörkun á timbri í klæðningu hússins.
- Urriðaholtið er hverfi sem er enn í byggingu og við höfðum dálitlar áhyggjur af því hve lengi við myndum búa á byggingarsvæði
Niðurstaða okkar var sú að færa okkur af Hraungötunni yfir í Brekkugötuna. Þar skipti miklu máli að Norðurhlutinn er vottaður. Það skipti einnig máli að í norðurhlutanum eru eingöngu 3 einbýlishús. Það opnaði möguleikan á að byggja 200 til 220 fermetra hús án þess að það liti út sem hundakofi innan um hin húsin í vesturhlutanum. Það skiptir einnig máli að við náðum samkomulagi við Urriðaholt ehf um að við í sameiningu reyndum að finna aðila sem hefðu áhuga á að byggja vistvæn hús á hinum tveimur einbýlsihúsalóðunum.
Varðandi bílastæðin þá mun eitt stæðið verða frátekið fyrir rafbíl og stefnt er að því að annað stæði verði “grænt stæði”. Þannig munum við reyna að minnka bílaásýnd húsins.
Eftir töluverðar umræður komumst við einnig að því að við mundum líklega ekki vera með meira en 30% timbur í klæðningu húsins og því væri deiliskipulagsákvæðið ekki hindrun fyrir okkur. Við sáum t.d. tækifæri falin í því að sýna framá að með nýrri hugsun væri hægt að minnka vistspor steypu um 25-30% miðað við venjuleg hús á Íslandi.
Niðurstaðan var því að byggja við Brekkugötu 2 í Urriðaholti