Þema sóun – fleygun

Það hefur nagað okkur í smá tíma hve mikið við þurftum að lækka lóðina sem hafði mikinn kostnað og veruleg umhverfisáhrif í för með sér. Lóðin er um 760 m2, grunnflötur hússins er 151 m2 og heildarmagn af klöpp/grjóti sem var fleygað og keyrð af lóðinni voru um 970 m3. Þetta þýðir að um 1,2 metrar af klöpp voru fjarlægðir af allri lóðinni. Mest var þó tekið á um 200 m2 svæði, undir og kringum hústhumb_img_1602_1024ið, en þar var, til að koma fyrir sökkli, fleygað niður um 2,6 metra sem samsvarar 70-80 cm undir botnplötu..

Kostnaður við fleygun og flutning samkvæmt gagnagrunni er um 5000 krónur/m3. Með öðrum orðum má segja að það kosti um 5 milljónir króna bara að gera klöppina tilbúna. Eins og þetta sé ekki nægilega slæmt þá bætist við öll mengunin frá gröfunni við fleygunina og aksturs vörubíla með grjót.

Stæsti hluti þessara fleygunar er vegna hæðarkvóta hússins sem er skilgreindur í deiliskipulagi. Til að hafa áhrif á það þarf að rífa upp deiliskipulag sem er verulega flókið og dýrt. Það að gólfkvóti botnplötu sé settur 1,2 metra undir klöpp er efni í sér grein. Hefði hæðarkvóti á botnplötu verið settur um 50 cm hærra hefði líklega verið hægt að spara um 380 rúmmetra af fleygun með tilheyrandi kostnaði (ca 2 milljónir).

Það sem er ekki síður áhugavert er fleygun vegna sökkuls. Dýpt á sökkli er yfirlett á bilinu 70 til 100 cm undir botnplötu og röksemdirnar sem við höfum heyrt fyrir því eru:

  • Með því að fara 70-100 cm undir botnplötu er hægt að komast í frostfría jörð (sem á kannski ekki alveg við þegar um klöpp er að ræða),
  • Það er nauðsynlegt til að koma lögnum undir húsinu,
  • Það heldur meindýrum í burtu.

Það sem truflar við þessi rök er að í Skandinavíu eru sökklar oft ekki meira en 30 cm og skiptir þá engu máli hvort byggt sé á klöpp eða púða og getur púðinn hvort heldur sem er verið á mold eða leir. Hvorutveggja er viðkvæmt fyrir frosti.

Viðmiðunarregla skandinavana er að það þurfi 100 cm einangrun undir botnplötu, þ.e. 30 cm á sökkul og afgangurinn (70 cm) er lagður á púðann í kringum sökkulinn

Sé kostnaður við mismunandi sökkuldýpt skoðaður verður dæmið dálítið sársaukafult fyrir veskið. Ef við hefðum bara farið 30 cm en ekki 70 cm undir botnplötu þá hefðu sparast um 80 m3 (200 m2 * 0,4m) af fleygun í klöpp. Þetta er um 400 þúsund krónur miðað við 5000 krónur á rúmmetra. Við þetta bætist að síðan þarf að fylla í sökkulinn aftur með möl og sand og kostar það um 4.000 krónur á rúmmetra eða samtals um 320 þúsund krónur.

Sú “hefð” að fara alltaf a.m.k 70 cm undir botnplötu í stað 30 cm, kostar því um um 720 þúsund krónur fyrir hús sem er 150 m2 að grunnfleti. Það hefur enginn komið með önnur og haldbær rök, en þau sem eru nefnd að ofan, fyrir því af hverju við á Íslandi þurfum að fara dýpra en skandinavarnir. Ég legg því til að það verði skoðað alvarlega að staðaldýpt sökkla verði 30 cm eins og í skandinavíu en einangrunn aukin út á púða eða umliggjandi klöpp. Það er hvoru tveggja gott fyrir umhverfið og fjárhaginn.