Hugleiðingar um PVC

Mikil umræða hefur átt sér stað um umhverfis- og heilsuáhrif poly-vinyl-chloride sem gengur almennt undir heitinu PVC eða Vinyl. Þar takast á annars vegar umhverfissamtök og hins vegar PVC iðnaðurinn. Þarna takast á miklir hagmunir enda veltir PVC iðnaðurinn miljörðum dollara á ári.   Ef leitað er á netinu að upplýsingum um PVC þá birtast fyrst og fremst leitarniðurstöður frá félagasamtökum með áhugaverð nöfn eins og PVCinformation, Dioxinfacts, Vinyl, Greenfacts o.s.frv. Mikið af þessu eru frá hlutdrægum hagsmunaaðilum. Því er mikilvægt að reyna að finna hlutlausa aðila s.s. opinberar rannsóknaraðila, stofnanir og háskóla.

Aðal umhverfisvandamálið við Vinyl er að við framleiðslu þess og bruna myndast dioxin. Dioxin er samheiti yfir fjölda efnasambanda sem eru mishættuleg fólki. Verstu dioxin efnasamböndin teljast til skaðlegustu eiturefna í heimi og geta haft veruleg áhrif á heilsu fólks. Agent Orange sem var mikið notað í Vietnam innihélt dioxin. Það er einnig nokkuð þekkt að fyrrum forsætisráðherra Ukarínu dó úr dioxin eitrun (google-ið Victor Yushcenko og dioxin)

Það sem er vitað um PVC og fáir mótmæla

 • Umhverfisáhrif PVC eru ekki mikil á líftíma vara, t.d. frárennslisröra og annarra byggingarefna
  • Til að PVC sé hins vegar nothæft í gólfefni þarf mýkingarefni sem eru t.d. þalöt. Þalötin eru skaðlegg. Gömul plastgólf verða oft hörð og undin. Það er afleiðing þess að megnið af þalötunum eru horfin.
  • Stundum er talað um “hið nýja PVC”. Það þýðir að það sé búið að skipta út rokgjörnum efnum eins og þalötum fyrir minna rokgjörn. Plastið er samt ennþá PVC
 • Dioxin myndast fyrst og fremst við framleiðslu PVC og síðan þegar PVC er brennt.
  • Dioxin myndast við ófullkominn bruna og við hitastig á bilinu 200 – 450 °C.
 • Til að mynda dioxin þarf rétt hitastig, klór og kolefni (oft plast).
  • PVC er plast sem inniheldur klór og því talið hafa sérstaklega mikilvægu hlutverki að gegna við myndun dioxins
  • Almennt heimilissorp veldur einnig dioxin mengun

Víglínan

PVC iðnaðurinn gerir mikið í því að reyna að hvítþvo sig og bendir á að nútíma hátækni sorpbrennslur eru yfirleitt keyrðar í margar vikur eða mánuði án þess að stoppa á hitastigi yfir 450°C. Það dioxin sem myndast sé síðan hægt að hreinsa úr með góðu hreinsikerfi. Þetta er þó umdeilt.

 • Þó svo að dioxin sé þvegið úr reyknum þá hverfur það ekki heldur safnast saman í öskunni.
 • Margar sorpbrennslur í heiminum eru ekki hátækni brennslur heldur þær eru keyrðar upp og niður á hverjum degi. Því er alltaf verið að fara í gegnum þennan hitaglugga á bilinu 200 til 450°C.   Þetta á sérstaklega við um litlar sorpbrennslur eins og þær sem eru/voru hérlendis

Dioxin myndast einnig við framleiðslu PVC. Ferillinn byrjar við að framleitt er klórgas úr saltlausn og þá myndast dioxin. Næsta skref er síðan að klórgasið er blandað saman við ethelene (resin) og myndað ehelene dichloride. Á þessu stigi myndast einnig dioxin.

Með öðrum orðum, PVC er fínt á meðan það liggur í jörðinni en það er verið að losna við umhverfisáhrifin við framleiðslu og förgun.

Aðrir eiginleikar sem minna eru ræddir er að við bruna á PVC myndast saltsýra (HCl) sem er mjög ætandi.

Umhverfismerki

Öll helstu umhverfismerki, s.s. Svanurinn, EU blómið og Blái Engillinn, taka á PVC. Svanurinn bannar t.d. PVC í yfirborðsefnum eins og gólfefnum og klæðningum. Í skólplögnum og raflögnum er það leyfilegt en í stigamatskerfinu fá húsbyggjendur stig fyrir að nota önnur minna skaðleg efni.

Okkar afstaða

Í Brekkugötunni er það okkar afstaða að forðast með öllu að nota PVC eða önnur byggingarefni sem innihalda klór. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á að finna valmöguleika og sýna að þeir eru til og aðgengilegir. Hugmyndafræði okkar er einfaldlega “Af hverju að nota skaðleg efni þegar önnur minna skaðleg efni eru fáanleg”. Ekki skemmir það fyrir að þær vörur eru einnig á sambærilegu verði og PVC vörurnar.

Brekkugata 2 verður því PVC laust hús