Um steypuna

Ég hef fengið nokkrar spurningar um hvort steypa geti verið vistvænt byggingarefni vegna kolefnisspors sements. Núna þegar steypuvinnu við húsið er lokið er ágætt að fara aðeins yfir reglurnar og steypuna almennt. Reglur Svansins eru nokkuð skýrar þegar kemur að steypu og byggja þær á að gera betur en markaðurinn gerir almennt.

Gerð steypu er hluti af stigakerfi Svansins en ekki lágmarksskilyrði en við ákváðum að sækja öll þau stig sem við gátum vegna steypunnar.

Svanurinn gefur okkur möguleika á að velja annað tveggja, að minnka magn steypu í húsinu þar sem það er mögulegt eða að minnka magn sementsgjalls í sementinu sem er notað í steypunni. Við ákváðum að gera hvoru tveggja.

Hönnun

Á hönnunarstiginu unnum við með VSB að þynna veggi húsins. Á Íslandi er venjan að steyptir veggir séu á bilinu 180 til 200 mm. Við ákváðum hins vegar að hafa veggina 150 mm eða ca 20% þynnri en venjan er. Þetta er ekki algengt en þó ekki óþekkt. Það er að sumu leiti auðveldara að hafa þykkari veggi.  Það er þægilegra að koma fyrir lögnum og síðan ekki eins mikil hætta á að það myndist “steypuhreiður” þegar steypt er. Kosturinn er að við þurfum ekki eins mikla steypu.

Sement

Varðandi sementið sjálft þá er magn sementsgjalls í steypu um 78%. Samkvæmt viðmiði Svansins er farið fram á að sementsgjallið sé ekki meira en 70%. Til að ná því hlutfalli var hluta af gjallinu skipt út fyrir kísilryk án þess að það hefði áhrif á eiginleika steypunar eins og veðrunarálag, styrk eða fjaðurstuðul. Þessi aðferð er þekkt en ekki mikið notuð. Til þess að ná okkar markmiðum fengum við BM Vallá í lið með okkur sem gerði prufusteypu fyrir okkur áður en endanleg ákvörðun um gerð steypunar var tekinn. Prufusteypan kom mjög vel út.

Þessi breyting á steypunni hefur þó tvennt í för með sér:

  • Frostþol steypunnar minnkar til lengri tíma litið. Það skiptir ekki máli í okkar tilfelli þar sem húsið er einangrað að utan. Við erum með einn staðsteyptan vegg fyrir utan húsið og hann var steyptur með venjulegri steypu.
  • Kísilrykið getur gert steypuna aðeins meira seigfljótandi sem er vandamál þegar við erum einnig búin að þynna veggina. Reynsla okkar er samt sú að þetta var ekki vandamál. Það mynduðust engin steypuhreiður hjá okkur.

Fjárhagslega séð er hagkvæmt að nota minni steypu en öll frávik frá venjulegum verkferlum kosta aukalega. Við erum hins vegar nokkuð þakklát BM Vallá fyrir að líta á þetta sem tilraunarverkefni hjá þeim og velta ekki aukakostnaðinum yfir á okkur.

Íblöndunarefni

Óháð því hvort við hefðum farið í steypuna með minna sementsgjalli eða ekki þá giltu sömu lágmarksskilyrði um íblöndunarefnin í steypuna og fyrir öll efni sem notuð eru í húsinu.   Svanurinn verður að samþykkja öll efni sem eru notuð í húsið. Það þýðir ekki að efnin séu Svansvottuð heldur að þau er leyfilegt að nota í Svansvottuð hús.   Í samstarfi við BM Vallá fengum við öll íblöndunarefnin samþykkt af Svaninum.

Reynslan

Reynslan á að nota steypuna frá BM Vallá með minna sementsgjalli er nokkuð góð. Það þurfti stundum að “víbra” steypuna aðeins meira en venjulega. Það getur að vísu einnig stafað af því að við erum með há og breiða glugga sem almennt var erfitt að koma steypunni undir. Að öðru leyti var þetta ekki að kalla á meiri vinnu á byggingarstað. Auk þess eru engin steypuhreiður í húsinu sem er kostur.

Einu vandræðin sem við lentum í var þegar barkar í milliplötu lyftu sér um 2 mm úr plötunni. Það var þó eina steypan sem við gátum ekki farið niður í 150 mm þykkt þannig að við getum hvorki kennt þykkt plötunar eða gerð steypunnar um það.

Reynslan af steypuvinnunni er því nokkuð góð og það besta er að eftir þessa vinnu getur því BM Vallá útvegað steypu í hús sem hægt er að nota í Svansvottuð hús. Er það óháð því hvort það sé verið að eltast við stigin vegna minna sementsgjalls eða ekki.

1 mars 2017