Rakvarnir eru Svaninum ofarlega í huga og í einu af gæðaviðmiðunum segir að það þurfi að tryggja að rakastig sé rétt í byggingarefni áður en það er meðhöndlað frekar, svo sem málað eða gólfefni lögð á.
Fyrsta spurningin sem vaknar er „hvert er rétt rakastig“ mismunandi byggingarefni. Til að byrja með gerði ég mjög óvísindalega könnun og heimsótti nokkrar málningar- og byggingarvöruverslanir og spurði um hvert rakastig innveggja og gólfa ætti að vera áður en það er málað. Svörin þar voru nokkuð misjöfn og ekki alltaf traustvekjandi. Þeim er hægt að skipta upp í meginflokka:
- Nokkrum sólardögum eftir steypu / það er í lagi að byrja að sparsla innan nokkurra daga
- 30 dögum eftir steypu
- Plastpróf, líma plast á smá flöt, og sjá hvort það myndist raki undir plastinu
- Rakastig steypu (4-5%), ýmist á yfirborði eða með leiðniprófi ca 40% inn í vegg (6-8 cm inn í 15 til 20 cm vegg).
Í framhaldi af þessu þá hafði ég samband við nokkra fagaðila hérlendis og erlendis auk þess sem ég lagðist yfir allt sem mér tókst að finna á netinu um reglur varðandi rakavarnir og málningu. Niðurstöðurnar úr þeirri rannsóknarvinnu eru eftirfarandi:
- Steyptir gólffletir
- Æskilegt rakastig í steyptum gólffleti er á bilinu 4 til 5%. Skemmdir á máluðum gólfum vegna raka eru þó fátíðar. Ef það á aftur á móti að leggja gólfdúk eða parket þá er mjög mikilvægt að ná undir 5% rakastigi. Vönduð vinnubrögð og að fjarlægja óhreinindi og annað er ekki síður mikilvægt til að koma í veg mögulegar skemmdir.
- Rétt rakastig í botnplötu er mikilvægara en í milliplötu. Í milliplötu getur raki leitað bæði upp í gegnum gólfið eða niður í gegnum loftið á hæðinni fyrir neðan. Sé lagt parket á milliplötu er æskilegt að fá rakastigið einnig undir 5%
- Steyptir innveggir
- Rétt rakastig er ekki eins krítískt í steypum innveggjum eins og í gólfi og því eiga 4-5% mörkin ekki við þar. Það mikilvæga er að rakajafnvægi náist á milli veggja og umhverfisins.
- Sparsl og plastmálning eykur örlítið rakaviðnám í veggjum sem leiðir til þess að það getur tekið lengri tíma að rakajafnvægi náist.
- Rakastig í veggjum leiðir almennt ekki til skemmda á innveggjum svo lengi sem að það myndast ekki rakataumar. Helstu ástæður rakatauma er beinn leki að utan eða að loftraki þéttist á vegg vegna kuldabrúar.
- Þegar rakaskemmdir myndast er það yfirleitt sparslið sem bólgnar út og myndar bólur í málningunni.
- Timbur
- Rakastig í timbri þarf almennt að vera á bilinu 16 til 18% áður en það er málað. Þetta er sambærilegt við rakastig í timbursperrum áður en þaki er lokað.
- Sé rakastigið hærra þá eyðileggur það ekki málninguna en viðloðunin verður verri. Það í sjálfu sér veldur að hún máist auðveldar af án þess að hún sé ónýt.
- Múraðir veggir
- Varðandi málningu á múruðum veggjum (milliveggjasteinum) gildir að mestu það sama og með steypta innveggi. Vandamálið þar er að múrinn þarf að þorna almennilega áður en það er málað og það getur tekið töluverðan tíma. Ef múrinn er að springa vegna raka, þá getur engin málning eða sparsl lagað það.
- Hleðslusteinar
- Núna eru hleðslusteinar úr gifsi eða léttsteypu að ryðja sér til rúms. Hleðslusteinarnir eru þurrir og síðan er sparslað yfir þá. Þessir steinar eru nokkuð nýir á markaðnum og ekki kominn almennileg reynsla á þá. Vegna skorts á reynslu verður að skoða þá í sambærilegu ljósi og steypta innveggi.
Það er ekki hægt að gefa út nákvæman þurkktíma fyrir mismunandi byggingarefni þar sem að tíminn fer eftir ýmsum ytri aðstæðum. Þar skiptir loftun og hitastig mestu máli. Heitt loft heldur meiri raka en kalt loft og dregur því til sín raka úr veggjum. Það þarf að loftræsa út rakamettuðu heitu lofti til að fjarlægja rakann. Því er einnig mikilvægt að vera með rakamæli í húsinu til að mæla rakastigið í innanhúsloftinu. Hversu lengi þarf að hita rýmið og bíða fer algerlega eftir ytri aðstæðum, árstíðum, hita og veðri. Séu niðurstöðurnar teknar saman þá má segja að þær séu í stuttu máli eftirfarandi:
- Hitið upp rýmin og loftræsið vel áður en málningarvinna hefst
- Gerið rakamælingu á gólffleti og tryggið að raki sé ekki yfir 5%. Svanurinn fer framá að gert sé leiðnipróf (borað í gólfflötin og leiðni mæld til að mæla rakann). Þetta er sérstaklega mikilvægt ef það á að leggja gólfdúk, svo sem línolíudúk, eða parket (viðargólf).
- Fyrir veggi er ágætt að gera rakamælingu og þar ætti yfirborðsmæling að duga. Best að gera með rakamæli en plastpróf gæti einnig dugað.
- Vandaður undirbúningur er forsenda góðrar vinnu.