Rafmagnsbarkar

Ein af þeim byggingarvörum sem hefur verið erfitt að fá samþykkt í Svansvottað hús eru rafmagnsbarkar, þ.e ídráttarbarkar fyrir rafmagnslagnir.  Svanurinn setur í raun tvennar kröfur á barkanna.

  • Það er hægt að fá stig fyrir það ef barkarnir eru ekki úr PVC plasti. Þetta er ekki ófrávíkjanlegt skilyrði því að það er hægt að sækja stiginn annarsstaðar.
  • Barkarnir mega ekki vera með eldtefjandi efni (flame retardants) sem innihalda bróm.  Þetta er ófrávíkjanleg krafa.  Svanurinn er þó praktískur að því leiti að það geta verið spor af brómi en það má ekki vera meira en 100 parts per milljón sem er 0,01%.

Við höfum rætt áður um PVC og nauðsyn þess að fasa það út úr samfélaginu.  Það er efni sem er kannski ekki skaðlegt við notkun en bæði framleiðsla og förgun á því er mjög umhverfisspillandi.  Við það má síðan bæta að við bruna þá myndast hvoru tveggja klórgas og díoxín sem geta t.d. gert slökkviliðsfólki erfitt fyrir sem og fólki sem er inni í byggingum.  Það eitt og sér er ástæða að minnka eða forðast notkun á PVC – umhverfisáhrifin eru síðan önnur ástæða.

Það er í raun ekki erfitt að finna PVC fría barka.  Þeir eru yfirleitt auðkenndir með LSZH eða Low Smoke Zero Halogen.  Klór er á bilinu 40-50% af þyngd PVC og þar sem klór er halógen þá er náttúrulega ekkert PVC í halogenfríum börkum.

Bróm er einnig halógen og því mætti halda að það væri ekki neitt bróm í halógenfríum börkum.  Það er hins vegar ekki svo einfalt.  Af praktískum ástæðum þá er halógenfrítt skilgreint af iðnaðinum sem minna en 0,1% halógenar.  Þetta er 10 sinnum meira en það sem Svanurinn leyfir.

Flestir framleiðendur rafmagnsbarka fylgjast með því hvort að halógenmagnið nái 0,1% en fæstir athuga hvort það nái 0,01%.  Þar hefur vandamálið hjá okkur legið, að tryggja að brómmagnið sé ekki meira en 0,01%.  Í ferlinu hjá okkur höfum við fengið ýmis svör frá framleiðendum en mjög fáir getað sannfært okkur um að brómmagnið sé undir viðmiðunarmörkum Svansins.

Okkur hefur þó tekist að finna barka sem við gátum notað í húsið og sem aðrir vistvænir byggjendur sem eru að stefna á Svansvottuð hús geta notað.  Fyrir aðra sem eru í vandræðum en vilja finna “vistvænni kost” þá mæli ég með að nota halogenfría barka.  Ávinningurinn að losna algerlega við PVC er það mikill að það er hægt að sjá í gegnum fingur sér með <0,1% bróm.

Fyrir þá sem vilja fræðast meira um hætturnar af PVC rörum og börkum þá er nóg að googla LSZH og smoke test.  Þá fáið þið upp slatta af áhugaverðu efni.