Hormónatruflandi efni, börn og krabbamein

Í morgun hélt Svanurinn á Íslandi mjög áhugaverðan fyrirlestur um hormónatruflandi efni og áhrif á þeirra á fyrstu árum barna.  Þar var einnig farið í gegnum að lengi býr að fyrstu gerð og það rökstudd að efni sem við verðum fyrir í móðurkviði geta leitt til krabbameins seinna á lífsleiðinni.    Áherslan var mikið á hormónatruflandi efni í leikskólaumhverfi barna, plasti, leikföngum, matarumbúðum og fleiru.    Þetta eru nákvæmlega sömu efni og er að finna í byggingarvörum og fólk er að byggja inn í húsin sín.

Það sem var verið að leggja áherslu á er skaðsemi eftirfarandi efna:

  • Formaldehýðs sem er að finna í ýmsum gerðum timbri og viðarplötum svo sem spónarplötum, krossvið og hugsanlega OSB
  • Flúorefnanna PFOA og PFOS sem eru vatns- og fitufráhrindandi efni. Sem dæmi um þessi efni má nefna Teflon og Gore-tex
  • Brómefna sem hafa verið notuð mikið í eldtefjandi efni (flame retardant). Ég lærði t.d. að það var heppni að þegar freón var fundið upp að þá stóð valið á milli klórs (Cl) eða bróms (Br) og sem betur fer féll valið á klór.  Ef valið hefði fallið á bróm þá værum við ekki með neitt ósongat því það væri ekki hægt að vera með gat í því sem ekki finnst.  Bróm er semsagt margfalt skaðlegra fyrir ósonlagið og hefði algerlega eyðilegt það.
  • PVC plast – vínyldúkar, skólprör og rafmagnsvírar
  • Polykarbonat plasts (PC) en í staðinn ætti að nota PP og PE
  • Vandamáli við bæði PC og PVC er ekki bara innibúandi eiginleikar plastsins heldur er einnig notuð mýkingarefni (þalöt og bisphenol efni) við framleiðslu þeirra. Þau efni gufa smám saman úr vörunum og hafa á loftgæði innanhúss.  Þess vegna bannar t.d. Svanurinn vínyldúka
  • Þungmálma eins og blý, kvikasilfur, kadmín og eðalmálma

Þó svo að allir fyrirlestrar hafi verið áhugaverðir þá fannst mér fyrirlestur Anna-Maria Anderson frá Centre for Endocrine Disrupting Chemicals í Danmörku vera áhugaverðastur.  Sá fyrirlestur fjallaði um hlutverk hormóna í þroskaskeiði fósturs og hvaða áhrif þeir hafa á hverjum tíma fósturskeiðsins.  Hormónar eru svokallaðir “triggerar” og geta sett í gang eða haft áhrif á þroskaferla fósturs.  Hormónar eða hormónalíknandi efni í líkamanum á röngum tíma geta sett ranga þroskaferla í gang.  Þegar fóstur er 9 vikna gamalt þá er ekki hægt að sjá mun á kynfærum kynjanna.  Nærvera testósterons hefur áhrif á það hvort fóstrið þróast í strák eða stelpu.  Ef það eru efni í líkamanum sem líkjast testósteróni þá getur það haft veruleg áhrif á hvernig kynfæri þroskast og hvort þau verða fullþroska eða ekki.  Samkvæmt Anna-Maria þá er það einnig talið hafa áhrif á hvort fólk þróar með sér krabbamein síðar á lífsleiðinni.  Það eru marktækari vísbendingar um það hjá karlmönnum en konum.   Tíðni t.d. eistnakrabbameins hefur t.d. 2 til 4 faldast á seinustu 35 árum á norðurlöndum (aðeins mismunandi eftir löndum) og er það að miklu leyti talið til hormónatruflandi efna.  Tíðni brjóstakrabbameins hefur einnig aukist en þar er erfiðara að sýna sambandið þar sem mun fleiri þættir geta haft samband í því tilfelli.  Það er t.d. talið að líkur á krabbameini í brjósti aukist eftir því sem kynþroski færist neðar í aldur og að líkurnar minnki með fjölda barna.  Ein kenningin sem mér finnst vera áhugaverð er að konur losna við hluta af hormónatruflandi efnum þegar þau eru með börn á brjósti.  Það er að vísu ekki mjög falleg hugsun að yfirfæra þessi efni í börnin sín.  Vandamálið sem við karlarnir stöndum frammi fyrir er að við losnum ekkert við þessi efni (því var sorglegt að sjá að það voru eiginlega bara konur á fyrirlestrinum þegar þetta er vandamál sem snertir okkur karla í hæsta máta).

Það sem er einnig ógnvekjandi með þessi efni er að þau hafa töluvert langan líftíma, jafnvel tugi ára.  Með öðrum orðum þá geta efni sem við erum að nota í dag haft áhrif á fóstur eftir 20 ár og valdið krabbameini 40 árum síðar. Þetta þýðir að notkun okkar í dag á hormónatruflandi efnum getur valdið krabbameini eftir 60 ár.   Af einhverjum ástæðum þá er þetta nægjanleg ástæða til þess að útrýma þessum efnum úr samfélaginu í dag.

En endum þetta á aðeins öðrum nótum.  Flest þekkjum við hugtakið „Canary in the coalmine“ en saga þess er sú að námuverkamenn höfðu kanarífugla með sér í kolanámur þar sem fuglarnir eru viðkvæmir fyrir eitruðum lofttegundum.  Ef fuglarnir veiktust eða drápust þá var það merki um að eitthvað alvarleg væri að og námuverkamennirnir ættu að koma sér út hið snarasta.  Fyrir þau ykkar sem eigið kanarífugl sem er sífellt slappur eða jafnvel drapst þá er skýringarinnar líklega að leita í eldhúsinu.  Kanarífuglar þola mjög illa (eða bara alls ekki) að vera húsum þar sem matur er steiktur á teflonpönnum (Þá er ekki verið að tala um að fuglinn sé maturinn).

Ef þið viljið kynna ykkur málin betur þá eru hér nokkrir hlekkir:

State of the Science of endocrine substances

https://www.who.int/ceh/publications/endocrine/en/

Vägledning til kemikaliefri förskola

http://miljobarometern.stockholm.se/content/docs/tema/kemikalier/kemikalieplan/vagledning-kemikaliesmart-forskola.pdf

Late lessons from early warnings, a project that illustrates how damaging and costly the misuse or neglect of the precautionary principle can be

https://www.eea.europa.eu/publications/late-lessons-2/late-lessons-chapters/late-lessons-ii-chapter-1-introduction/view

Chemsec – safer chemicals

https://chemsec.org/