Kambstál og kolefnisspor

Í byggingargeiranum er núna mikið talað um „embodied carbon“ sem hefur verið þýtt sem „bundið kolefni“.     Þýðingin er ekki góð hér er í raun átt við kolefnisspor byggingarefnis.  Grænni Byggð þeirra í Bretlandi útskýrir þetta á eftirfarandi máta:

Embodied carbon is the total greenhouse gas emissions generated to produce a build asset.

Þau tvö vottunarkerfi sem eru á Íslandi taka að nokkru leyti tillit til kolefnisspors byggingarefnis.  Í tilfelli Svansins fjallar það fyrst og fremst um að minnka kolefnisspor steypu.  Í BREEAM er aftur á móti hægt að fá stig fyrir að vinna með „Low carbon design“ og „Life cycle assesment of building products“.  Eitt mikilvægasta verkfærið í BREEAM eru staðlaðar umhverfisyfirlýsingar (Environmental Product Declaration – EPD). Í þeim á meðal annars að tilgreina kolefnisspor viðkomandi byggingarefnis út frá staðaleiningu.

Þegar við byggðum Brekkugötuna (Visthúsið) þá lögðum við mikla áherslu á að minnka bæði magn og kolefnisspor steypunnar.  Þetta gerðum við bæði með því að þynna veggi og minnka magn sementsgjalls í steypunni eins og rætt hefur verið hér á síðunni áður.

Þegar hús eru steypt þá þarf kambstál (steypustyrktar járn).  Fyrst héldum við að með því að minnka steypu þá þyrfti aukið járn.  Því er aftur á móti öfugt farið, minni steypa kallar á minna járn.

Nýlega gaf BM Vallá út EPD fyrir rúmmetra af C30/37 útisteypu og C25 innisteypu ECO.  Kolefnisspor þessara tveggja steyputegunda er annars vegar um 310 kg CO2 /m3 steypa og hins  vegar 203 kg CO2/m3 steypa.   Lang stærsti hluti kolefnissporsins kemur frá sementi en kolefnisspor sements er almennt rúmlega 800 kg CO2 / tonn sement.  Það er því mikil ávinningur að minnka steypu (þynna veggi) og nota innisteypu þar sem það er hægt (t.d. í húsum sem eru einangruð að utan).  Nóg um það og aftur að stálinu.

Því hefur stundum verið fleygt fram í mín eyru að kolefnisspor kambstáls væri svipað og hjá sementi, þ.e. við framleiðslu á einu tonni af steypustyrktarjárni losna tæp 800 kg af CO2.  Til að fá þetta staðfest þá leitaði ég að EPD skjölum á heimasíðu vottunarkerfis fyrir kambstál sem heitir eco-reinforcement.   Þetta vottunarkerfi er fyrir ábyrgan uppruna steypustyrktarjárns.  Það er mín tilfinning (byggt á reynslu) að fyrirtæki sem eru almennt að standa sig vel í umhverfismálum hafi frekar tilhneigingu til að gefa út EPD skjöl.  Út frá því áætla ég (má gangrýna) að almennt sé kolefnisspor kambstáls í efri kantinum af þeim sem eru að gefa út EPD skjöl.   Af þeim EPD skjölum sem ég fann þá er lægsta kolefnisspor kambstáls 388 kg CO2/tonn kambstál en það hæsta 779 kg CO2/tonn kambstál (m.v liði A1 til A3 í EPD skjölunum – þ.e. framleiðslu stálsins)

Framleiðandi Celsa Megasa SN Maia Megasa SN Seixal Megasa SL Naron HY-TEN
GWP A1-A3 388 438 690 527 779
EPD – tengill Celsa Maia Seixal Naron Hy-ten

Miðað við ofangreint þá er ekki ólíklegt að almennt sé kolefnisspor af framleiðslu af kambstáli tæp 800 kg CO2 / tonn kambstál.   Sé þetta sett  í íslenskt samhengi þá er notkun á kambstáli hérlendis á bilinu 30 til 40 þúsund tonn.  Það verður því að gera ráð fyrir að kolefnislosun við framleiðslu á því kambstáli sé um 32 þúsund tonn af CO2 á ári.  Með meðvitaðri innkaupastefnu væri aftur á móti hægt að minnka kolefnissporið um ca 12 til 16 þúsund tonn á ári með því að velja kambstál með lágu kolefnisspori.  Til að setja í vinsælt samhengi þá samsvarar þetta akstri 5 til 8 þúsund einkabíla á ári.

Núna er ríkið nýbúið að gefa út aðgerðaráætlun í loftslagsmálum þar sem meðal annars er rætt um aðgerðir í byggingariðnaðinum.   Tveir aðilar í eigu ríkisins eru einnig í stórbyggingum núna, Landspítalinn og Landsbankinn.  Áætlað heildarmagn kambstáls í þessar tvær byggingar er líklega á bilinu 15 til 20 þúsund tonn á byggingartímanum.  Eins og sést á töflunni hér að framan getur það skipt verulega miklu máli hvaða kambstál er valið.  Miðað við að mismunur á losun sé um 400 kg CO2 / tonn stál gæti sparnaðurinn verið á bilinu 6 til 8 þúsund tonn af CO2 eða því sem svarar akstri 3 til 4 þúsund bíla á ári.

Til þess að setja annan mælikvarða á losunina þá kostar 2.200 krónur hjá Kolvið að binda eitt tonn af CO2.  Kolefnisbinding uppá mismuninn (6.000 tonn) myndi því kosta aukalega um 13,2 miljónir ef ríkið væri að kolefnisbinda aukalosunina umfram hagstæðasta stálið.  Hvort það er mikið eða lítið sé tekið tillit til verðmunar á kolefnisnauðu/miklu stáli veit ég ekki.  Við verðum aftur á móti að fara að standa við það sem við segjum því það verður að draga úr losun koltvísýrings með öllum tiltækum ráðum.

Að þessu sögðu þá væri gaman að vita hvort kolefnisspor vegna kambstáls hafi verið reiknað og hvert það sé í bæði bæði nýjum Landsbanka og Landspítala.

GWP -EPD Celsa