Má biðja um smá gagnrýni

Stundum blöskrar mér þekkingarleysi eða kannski frekar gagnrýnisleysi útvarpsmanna þegar að þeir eru kynna vörur frá framleiðendum á besta útvarpstíma (morgunútvarpinu).  Yfirleitt læt ég eiga mig að hripa niður nokkuð um það en í morgun var Hulda Geirs með viðtal við tvo menn sem voru að dásama nanóefni og sóttvarnareiginleika þeirra og þetta væri svo náttúrulegt allt saman.  Ef skoðuð er heimasíða umboðsaðilana á Íslandi þá segir „Öll okkar nanóefni eru náttúruvæn og byggja á krafti náttúrunnar sem hefur alltaf verið til“.

En skoðum aðeins nanóefni og það sem var sagt í viðtalinu.  Það er rétt sem er sagt var að nanóefni mynda húð á yfirborði (gleri, eldhúsborðum, innréttingum o.s.frv.).  Það væri kannski réttara að segja að nanóefni eru efni í stærðinni 1 til 100 nm sem setjast ofan í ójöfnur á yfirborði og fylla upp í ójöfnurnar þannig að óhreinindi festast ekki þar.  Kostir nanóefna sem er smæðin er líka vandamál þeirra.  Þegar það er verið að tala um skaðlegt svifryk fá umferð þá er átt við svifryk af stærðinni 2,5 mikrómetrar.  Þegar það er verið að tala um nanónefni þá eru efri mörk nanóefna um 100 nm eða 0,1 mikrómetri. 

Skaðsemi svifryks (2500 nm) er að það svífur um í andrúmsloftinu.  Ef við öndum því að okkur þá á það greiða leið í öndunarfærin og niður í lungun.  Efni sem eru enn minni eiga enn greiðari leið.  Efnasamsetning nanóefna getur síðan verið mjög mismunandi.  Það eitt að fá þau í lungun er það slæmt að til dæmis norræna umhverfismerkið Svanurinn bannar nanóefni í sínum vöruflokkum, bæði  byggingarvörum og í vörum/efnum sem má nota í Svansvottuð hús.  Þess vegna þurfti að ganga tryggilega úr skugga með það hvorki gler, innréttingar né annað sem við notuðum í Brekkugötuna innihélt nanóefni.

Varðandi efnaeiginleikana þá var byrjað í viðtalinu um  að ræða nanó kvarts [quartz eða silika (SIO2)].  Það var dásamað í viðtalinu fyrir eiginleika sína í efnavörum sem mynda yfirborðshúð.  Það á t.d. við um bílabón og meira.   Ef heimasíða Efnastofnunnar Evrópu er skoðuð þá  kemur eftirfarandi upp fyrir kvarts.

Ég vek sérstaklega athygli á því sem stendur undir myndinni:

„Danger! According to the classification provided by companies to ECHA in CLP notifications this substance causes damage to organs through prolonged or repeated exposure and may cause cancer“.

Stór hluti viðtalsins fór síðan í að dásama undraefnið sem viðkomandi aðilar eru með til sölu. Svo var það algerlega náttúruvænt og skaðlaust (nema hvað það drepur allar bakteríur sem það kemst í tæri við).  Hulda nefndi að þetta væri eiginlega of gott til að vera satt og skildi ekkert í því af hverju það væru ekki allir að nota þetta efni.   Það var nokkuð mikið gert úr því að þetta efni væri meðal annars notað til að þrífa flugvélar.  Ég var ekki alveg að tengja af hverju það ætti að vera gott.    Til að rannsaka efnainnihald undraefnisins fór ég á heimasíðu fyrirtækisins til skoða öryggisblað efnisins.  Öryggisblað er staðlað upplýsingablað um eiginleika og innihaldsefni efna sem eru á markaði í Evrópu.  Allir framleiðendur og seljendur efna eiga að hafa slík blöð tiltæk  fyrir notendur þeirra. 

Fyrsta sem vakti athygli mína var að þeir leggja ekki út öryggisblaðið á heimasíðuna heldur verður að biðja sérstaklega um það.  Þetta fannst mér skrýtið þar sem að flest fyrirtæki leggja einfaldlega út blöðin á sínar heimasíður.  Því var ekkert annað að gera en að googla öryggsblað fyrir vöruna.  Þá fékk ég upp eitt blað sem var undraefnið „for aerospace“ (http://s643462637.websitehome.co.uk/wp-content/uploads/2016/11/MSDS_BacobanWB_EN.pdf)

Þá kemur eftirfarandi í ljós:

Efnið sjálft er mjög eitrað vatnalífverum en það er mjög mikilvægur mælikvarði á það hve skaðlegt efni er umhverfinu.  Næsta skref er að skoða möguleg skaðleg innihaldsefni í „náttúrulega undraefninu“.    Svanurinn er t.d. með kröfu um það að ekki megi finnast meira en örlítil sporefni af ákveðnum skaðlegum innihaldsefnum í vörum, jafnvel þó vörurnar sjálfar séu ekki skilgreindar skaðlegar (eins og þetta undraefni er).  Mörk Svansins fyrir skaðlegum innihaldsefnum eru 100 ppm eða 0,01%.  Í undraefninu eru innihaldsefni eftirfarandi:

Hér eru 4 efni tilgreind sem mögulega skaðleg og hlutfall þeirra allt að 30%.  Þá er bara að sjá hvort þau myndu standast efnakröfur Svansins.  Einfaldasta leiðin til að sjá það er að skoða hvernig efnin eru skilgreind af Efnastofnun Evrópu.

Benzalkoniumchloride (EG-nr. 270-325-2)

Það er nóg að lesa það sem stendur undir myndunum til að átta sig á að þetta efni er ekki mjög „náttúruvænt“.  Þetta efni kolfellur á prófi Svansins fyrir efnavörur.

Diethylenglykole (EG nr. 203-872-2)

Við fyrstu sín gæti þetta efni sloppið í gegnum nálarauga Svansins

Pyridin-2-thiol-1-onid, Sodíum Salt (EG nr: 223-296-5)

Þetta innihaldsefni fellur einnig á prófi Svansins fyrir efnavörur þar sem að vörur sem eru með hættusetningu H400 mega ekki vera í meira magni en 0,01% í efnavörum.

Niðurlag

Til að svara spurningu Huldu af hverju það eru ekki allir að nota þetta þá held ég að ofangreint svari því af einhverju leyti.  Nanóefni í krafti smæðar sinnar og óháð efnasamsetningu getur verið skaðlegt  við innöndun.  Efnasamsetning undraefnisins er síðan ekki mjög lofandi út frá heilbrigðis og umhverfissjónarmiðum.

Að lokum má nefna að þáttarstjórnandinn velti upp þeirri spurningu hvort það væri ekki hægt að skipta út öllum hreinsiefnunum heima fyrir þetta eina efni.  Í því samhengi vil ég nefna að bakteríur og vírusar eru frábærir að aðlaga sig að nýjum aðstæðum.  Þess vegna erum við, vegna ofnotkunar á t.d. lyfjum og ýmsum efnum, komin með bakteríur sem eru ónæmar fyrir ýmsum lyfjum/efnum.  Þetta er stórt heilbrigðisvandamál.  Það má vissulega fækka efnum sem fólk notar heima en það verður að hafa í huga að það þarf að skipta öðru hvoru um eiginleika efna við dagleg þrif.  Ef það er t.d. ávallt verið að nota basíks efni við þrif þá munu bakteríurnar smám saman mynda ónæmi.  Þess vegna þarf að nota t.d. súr efni inn á milli. 

Nú er ég kominn inn á brautir sem ég get alveg gleymt mér í sem eru „ónæmar bakteríur“ og ýmis önnur skaðleg efni í samfélaginu sem við verðum að fasa út.  Svo dagurinn fari ekki allur í þessi greinarskrif þá geymi ég umfjöllun um það uns þáttastjórnendur missa sig í umræðinni um hormónatruflandi og ýmis önnur bakteríudrepandi efni en sem nefnd eru hér að ofan. 

Mest af öllu vil ég samt biðja þáttarstjórnendur að vera smá krítíska í viðtölum og ekki gleypa við öllu sem sölumenn hafa að segja.  Það er ágætt að hafa í huga að „Ef eitthvað hljómar of vel til að vera satt“ þá er það líklega „of gott til að vera satt“.