Hugrenningar um Formaldehýð

Eitt af viðmiðum Svansins (O14) fjallar um uppgufun formaldehýð í byggingarvörum.   Viðmiðið nær fyrst og fremst til viðarplatna en einnig til MDF/HDF platna. Plötur sem innihalda formaldehýð eru til ýmissa nota svo sem í gólfefnum svo sem parketi, innréttingum eða viðarklæðningu. Formaldehýð er ekki í sjálfum viðnum heldur er í lími sem notað er í spónarplötur, krossvið, límtré eða aðrar sæmbærilegar plötur.

Til að skilja kröfu svansins um formaldehýð er ágætt að vita aðeins um efnið. Þetta er tiltölulega lítil sameind með efnafræðiformúluna CH2O. Efnið er litarlaust, hvarfgjarnt og með nokkuð sterka lykt við stofuhita. Það fellur undir skilgreininguna um rokgjarnt lífrænt efni oft skammstafað VOC eftir enska heitinu “Volatile Organic Compound”. Það að efnið er rokgjarnt þýðir að það er í gasformi við stofuhita sem með öðrum orðum þýðir að það yfirgefur viðarplötur og safnast fyrir í andrúmsloftinu. Þar sem að formaldehýð veðrast burt mjög fljótt utandyra leggur Svanurinn eingöngu áherslu á viðarplötur sem eru hugsaðar til innanhúsnota. Markmiðið er að koma í veg fyrir að formaldehýð safnist fyrir í innilofti.

Heilsuáhrif formaldehýð eru ágætlega skrásett. Áhrifin geta verið einstaklingsbundin en eru allt frá því að vera ertandi fyrir slímhúð (augu, nef, munn) yfir í að vera ofnæmis- og krabbameinsvaldandi. Því hefur í áratugi verið unnið með að minnka magn formaldehýðs í byggingarvörum.

Viðmið Svansins

Viðmið Svansins varðandi formaldehýð nær yfir byggingarvörur þar sem magn formaldehýðs er yfir 3% af þyngd vörunnar. Viðmiðið sjálft nær síðan til uppgufunar formaldehýðs úr byggingarvörunum. Hver uppgufunin má vera fer aðeins eftir því hvaða byggingarefni er um að ræða. Þannig er viðmiðið nokkuð strangara fyrir viðarplötur en MDF plötur. Nú má spyrja sig hvort foraldehýð sé ekki alveg jafn skaðlegt óháð því hvort uppruninn sé úr viðar- eða MDF plötu og svarið er auðvitað “jú”. Samtímis verður að hafa í huga að Svanurinn er mjög praktískur og það er auðveldara að ná lægri viðmiðum í timburplötum en MDF.

Staðlar

Í Evrópu er formaldehýð mælt samkvæmt staðali sem heitir EN 717-1. Þar er viðmiðið að “steady state” uppgufun eftir 28 daga sé ekki meiri en 0,1 ppm (parts per million) eða 0,12 mg/m3 loft. Vörur sem ná þessu marki geta fengið svokallað E1 viðurkenningu.

Eins og áður sagði hefur verið unnið lengi að því að minnka formaldehýð í byggingarvörum og það eru til ýmsir staðlar þar um.   Þegar árið 1985 var E1 lögbundið hámark á losun formaldehyde í Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi og Austurríki[1]. Það var hins vegar ekki fyrr en 2006 sem þetta varð lögbundið hámark í öðrum löndum Evrópusambandsins og er það svo enn.

Það eru hins vegar ýmsir aðrir staðlar sem eru mun metnaðarfyllri. Umhverfismerkið Blái Engillinn er með viðmiðið 0,05 ppm (helmingi lægra en E1). ÍJapan liggja mörkin í 0,03 ppm og í Kaliforníu er staðal sem kallast Californian Air Resource Board (CARB Phase II) sem liggur í 0,05 ppm eða sama og hjá Bláa Englinum.

Þó svo að E1 sé lagakrafan í Evrópu þá er einnig hægt að fá E0 vottun en þar er viðmiðið 0,07 ppm sem er hærra en Blái Engillinn, CARB eða japanski staðallinn.

Viðmið Svansins fyrir íbúðarhús er að fyrir viðarskífur þarf að uppfylla E0 en E1 fyrir MDF.

Smá reynslusaga

Stundum þegar ég eða samstarfsaðilar erum að hafa samband við mögulega birgja erlendis þá fáum við svarið að þeir séu að uppfylla sömu staðla og allir aðrir, t.d. E1 þegar kemur að formaldehýð. Ég þarf ítrekað að benda viðkomandi á að ég er ekki að byggja eins og aðrir og mér finnist metnaðurinn ekki vera mjög mikill ef það er enn verið að fylgja staðli sem var orðin krafa í sumum löndum fyrir um 30 árum eða árið 1985.  í orðalaginu “eins og allir aðrir” felst einnig dulin skilaboð að engir aðrir eru að gera betur sem er rangt.  Í öðrum löndum eru kröfurnar orðnar miklu meiri.   Að lokum má segja að það að fylgja bara lögum og reglum er nauðsynlegt en ekki nægjanlegt.

Þó svo að ég nefni þetta sem dæmi varðandi formaldehýð þá á þetta við um margar aðrar vörur sem ég er að skoða. Reynslan sem ég er að draga af þessu er að ef einhver segir “að allir eru að nota þetta”, þá vantar metnaðin að gera betur.

[1] http://owic.oregonstate.edu/sites/default/files/pubs/Schwab.pdf