Loftræstikerfi með hitaendurvinnslu

Eitt af því sem er næstum nauðsynlegt að vera með í húsinu til að ná orkuviðmiðum Svansins er loftræstikerfi með hitaendurvinnslu eða svokallað FTX kerfi. Það þýðir að inniloftið sem er sogið út hitar útiloftið sem fer inn. Við höfum fengið töluverðar athugsemdir um það að vera með loftræstikerfi. Það sem mér finnst áhugavert er að fagmenn eru yfirleitt mjög jákvæðir í garð kerfisins en athugasemdir “áhugafólks og almennings” eru frekar blandaðar. Helstu athugasemdirnar hafa verið um hvort við ætluðum ekki að vera með opnanlega glugga, þeir myndu örugglega rugla loftræstikerfið.

Þegar við hjónin vorum í Svíþjóð vorum við með loftræstikerfi í raðhúsinu þar sem við bjuggum og vorum við mjög ánægð með það. Þar var svalahurð og opnanlega gluggar um allt hús án þess að það ruglaði kerfið eitthvað sérstaklega í rýminu. Því var það enginn stærri óvissuákvörðun hjá okkur notast við loftræstikerfi. Það eru einnig ýmsir aðrir kostir við loftræstikerfið en bara hitaendurvinnslan.

  • Kerfið verður með smá yfirþrýstingi sem heldur úti allra verstu óhreinindum en einnig ýmsum ofnæmisvöldum svo sem frjókornum.
  • Inniloftið stöðugt á hreyfingu og verður aldrei “staðið”. Með öðrum orðum þá erum við að fá betri innanhúsloftgæði.

Af okkar reynslu af loftræstikerfum þá eru gallinn einungis einn. Það þarf að skipta um síur reglulega og á nokkura ára fresti þarf að þrífa loftræstistokkana.

Kerfið sem við verðum setjum upp hjá okkur heitir SAVE VTC 300L og er fengið frá Varma ehf.

Í umræðunni um hvort það sé ekki dýrara að byggja umhverfisvottað samanborið við “hefðbundið” hefur loftræstikerfið stundum borið á góma. Eins og í mörgu öðru er tækjabúnaðurinn ekki dýrasti hlutinn heldur vinnan við að setja hann upp. Vissulega er loftræstikerfið í heild sinni aukakostnaður við byggingu hússins. Lægri rekstarkostnaður í formi minni orkunotkunar á líftíma vega upp á móti hærri fjárfestingakostnaði. Endurgreiðslutíminn í formi rekstarsparnaðar er hins vegar nokkuð langur miðað við núverandi orkuverð. Ég vil hins vegar halda því fram að hús með og án loftræstikerfis sé ekki sama húsið. Kostir kerfisins í formi betri innanhússloftgæða réttlæta kostnaðinn að mínu mati alveg óháð sparnaði í orkunotkun.