Sagan á bak við álklæðninguna

Í gær birtum við myndir á Facebooksíðu verkefnisins af álklæðningunni, þar á meðal myndina hér að neðan.

Við höfum fengið mjög mikil og jákvæð viðbrögð við þeim myndum. Í dag/kvöld höfum við fengið heimsóknir af fólki sem var að skoða klæðninguna auk þess sem ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir um klæðninguna eins og hver hannaði hana, hvar fengum við hana, hver er hugmyndin á bak við hana, hvernig datt ykkur í hug að hafa hana svona dökka o.s.frv.  Hér á eftir kemur saga hennar í stuttu máli.

Ein af forsendum verkefnisins var að hafa húsið tiltölulega viðhaldsfrítt og þá kom álklæðning snemma upp í umræðunni. Við höfðum í raun ekki almennilega gert okkur í hugalund hvernig hún ætti að vera og létum það í hendurnar á Sigga Einars hjá Batteríinu, sem er arkitekt, að húsinu að koma með hugmyndir. Hann henti ýmsum hugmyndum á okkur og í fyrstu ræddum við um að hafa læsta klæðningu. Það féll hins vegar á því að það er frekar vinnuaflsfrekt og dýrt að setja upp slíka klæðningu. Næsta hugmynd var þá að brjóta hana upp með rákum sem gæfu klæðningunni “læst” yfirbragð. Smám saman þróaðist það yfir í að hafa bæði rákirnar en einnig þrjár mismunandi breiddir af álkassettum. Þar vorum við fyrst og fremst að horfa á 150, 225 og 300 mm breiddir.   Lengdin á kassettunum var síðan almennt 70 eða 140 cm.   Þegar við vorum komin niður á þetta var næsta skref að ákveða litinn. Siggi kom strax með hugmyndina að hafa klæðninguna dökka og í sannleika sagt leist okkur ekkert á það en Siggi gaf sig ekki. Við reyndum að draga hann yfir í ljósari liti og til að gera langa sögu stutta þá náðum við saman um RAL 7016.  Við leituðum ráða hjá nokkrum aðilum til að safna vopnum “gegn hugmyndum Sigga” en varð lítið ágengt.  Eftir því sem tíminn leið þá sættum við okkur við litinn og urðum síðan smám saman skotin í honum.   Einu mótbárurnar sem við heyrðum voru að svona dökk klæðning dregur í sig hita sem kannski eykur aðeins hreyfingu hennar og brak í húsinu á heitum dögum.  Á móti kemur að dökk klæðning gefur frá sér hita og það er hægt að sitja lengur úti á palli á sólríkum sumarkvöldum (smá sumarrómantík og fortíðarþrá frá því að við bjuggum í Svíþjóð).

Næsta skref var síðan að spjalla við Byko um nákvæmar útfærslur.

Það kom fljótlega í ljós að ef við vildum halda gluggalínunum þá væri ekki hægt að einskorða sig við þrjár breiddir af kassettum heldur þyrfti á einhverjum stöðum að vera með aðrar breiddir þó svo að þessar þrjár væru aðalbreiddirnar. Síðan er húsið það flókið í laginu að það er ekki heldur hægt að vera með tvær lengdir heldur þurfti að aðlaga lengdirnar aðeins eftir húsinu. Þegar upp var staðið skilst mér að það hafi verið framleiddar 90 mismunandi tegundir af kassettum, áfellum og vatnsbrettum.  Það kostaði aðeins aukalega en hingað til lítur það mjög vel út.

Eins og glöggir aðilar hafa líklega tekið eftir að þá er liturinn á klæðningunni ekki RAL 7016 heldur örlítið dekkri. Ástæða þess er sú að algengasta aðferðin til að lita álklæðningu er að nota svokallað PVdF húð. PVdF stendur fyrir polyvinyliden fluoride og þar sem að það inniheldur fluor þá er það ekki mjög umhverfisvænt. Því var ákveðið að anodisera álið (þ.e að láta það “ryðga”) svart. Það takmarkaði aðeins valmöguleikana á litavali og þegar upp var staðið völdum við aðeins dekkri lit en RAL 7016. Þannig má segja að Siggi Einars hafi fengið sitt í gegn að lokum, þökk sé umhverfissjónarmiðum.

Klæðningin verður brotinn upp á nokkrum stöðum með lerkiklæðningu. Núna er verið að byrja á henni og andstæðurnar koma mjög skemmtilega í ljós. Lerkið verður ómeðhöndlað og fær að grána með tímanum.

Þennan pistil endum við síðan eins og allar góðar sögur og gefum aðeins í skyn að við eigum enn eftir að spila út smá óvæntum kortum varðandi klæðninguna.  Það gerum við þegar við förum að tala um “sárið” í  húsinu.