Rakavarnir í baðherbergjum

Með aukinni myglu- og vatnsskaðaumræðu er mikilvægt að hafa í huga frágang rakarýma, sérstaklega í baðherbergjum.  Í Brekkugötunni ákváðum við að taka nokkur skref til að minnka áhættu á vatnsskemdum í húsinu.  Í fyrsta lagi ákváðum við að hafa hlaðna veggi í stað gifsveggja í öllum votrýmum á neðri hæð.  Á efri hæð erum við með gifsvegg milli herbergja og baðherbergis en þá þurfum við að vera sérstaklega varkár með rakavarnarlag.  Ástæða þess að við fórum í gifsveggi á efri hæð er mikil lofthæð.  Það hefði verið mjög flókið að hlaða veggi upp í allt að 5 metra.

Þegar byggja átti inn salerniskassa á neðri hæð var okkur bent á að það væri hægt að fá rakavarinn krossvið eða rakavarnar spónarplötur en samtímis var okkur bent á að það væru til betri lausnir. Í því samhengi má benda á að  seinast í gær sáum við að það er verið að nota spónarplötur inn í baðherbergi í kringum vatnskassa.  Í þessu er lím sem mygla nærist á.  Við ákváðum  frekar að fara í “dautt” efni og notum Marmox baðplöturnar (sjá byggingarefni).  Það eitt og sér er ekki nægjanlegt til að koma í veg fyrir rakaskemmdir en það minnkar líkurnar.

 

Stærsta ákvörðunin var samt að við erum að reyna að fylgja eftir sænskum “bransch” reglum um frágang votrýma. Við mælum með því að fólk kynni sér þessar reglur mjög vel ef ráðast á í framkvæmdir í baðherbergjum. Við hjónin höfum fengið iðnaðarmenn til að gera upp baðherbergi bæði í Svíþjóð þegar við bjuggum þar og síðan hér heima á Íslandi.  Án þess að við ætlum að móðga heila starfsstétt þá verður að viðurkennast að okkur fannst rakavarnarmenningin mikið lengra kominn í Svíþjóð.

Trade rules of the Swedish Ceramic Tile Council for Wet Areas

Hér skiptir miklu að votrými eru kvoðuð mikið meira en almennt gerist á Íslandi.  Kassar byggðri utan um salerniskassa byggða utan um salerniskassa skal kvoða bæði innan og utan (leki salerniskassinn á vatnið að leita út en ekki inn).  Það þarf að kvoða öll gólf og a.m.k meter út fyrir sturtu og bað.   Svo er margt annað sem þarf að hafa í huga.

Það var búið að vara okkur við að íslendingar væru nú ekki mikið að hugsa út í þetta og það væri erfitt að fá iðnaðarmenn að fylgja þessum reglum.  Það kom því þægilega á óvart þegar Marek (MG flísar) þekkti þessar reglur mjög vel og sá ekkert til fyrirstöðu að fylgja þeim.

Það er samt gott að hafa í huga að enginn leki er besta rakavörin og ekkert efnisval kemur í stað réttrar uppsetninga tækja í því tilliti.